145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög alvarlegt þegar stjórnvaldið hótar stofnun eins og umboðsmanni Alþingis. Það hefur þessi ríkisstjórn margsinnis gert, það hefur formaður fjárlaganefndar margsinnis gert, (Gripið fram í.) það hefur leiðtogi lífs hennar heldur betur gert opinberlega og hæstv. fjármálaráðherra hefur verið einkar framstyggur gagnvart embættinu. Ástæðan er mjög skýr. Það sem stjórnvaldið og sérstaklega ríkisstjórnin vill ekki er það sem er beittasti hnífurinn í vopnaskáp embættisins og það eru frumkvæðisathuganirnar. Það eru þær sem stjórnvaldið óttast mest. Þess vegna segi ég: Það þarf að vera sérstök fjárveiting til þeirra, sem hefur aldrei verið. Umboðsmaður hefur alltaf þurft að taka fjármagn til þeirra af öðrum liðum en við sem höfum árlega lesið skýrslur embættisins sjáum að önnur erindi sem því berast hrannast upp. Ef við ætlum að halda (Forseti hringir.) þessu tæki beittu verður að fara þá leið að setja (Forseti hringir.) sérstaka fjárveitingu til frumkvæðisathugana.