145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um fjárlagafrumvarpið sem hér er til 2. umr. og nota tækifærið líka og gera stuttlega grein fyrir þeim breytingartillögum sem stjórnarandstaðan leggur fram við meðferð málsins við 2. umr. og við kynntum á sameiginlegum fréttamannafundi í dag.

Það er athyglisvert þegar horft er á fjárlagafrumvarpið, jafnt eins og það kom frá hendi ríkisstjórnarinnar og nú eftir meðferð fjárlaganefndar, hversu sárt það er að sjá að menn nýti ekki þau tækifæri sem þetta fjárlagafrumvarp og batnandi hagur ríkissjóðs skapar til að taka á ýmsum vanda sem við ættum að geta verið sammála um að þyrfti úrbóta við. Það fer til dæmis ekkert á milli mála að eftir mjög mörg aðhaldssöm ár, eftir glímu við efnahagskreppu þar sem allir flokkar komu að því að samþykkja eða framfylgja aðhaldsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ættum við öll að geta verið sammála um að þegar búið er að keyra slíka aðhaldsáætlun í mörg ár er uppsöfnuð fjárfestingarþörf víða í samneyslunni. Það á við um heilbrigðisþjónustuna og sérstaklega Landspítalann, það á við um fjölmarga annars konar innviði, vegakerfið, það á við um skólakerfið og svona mætti lengi telja.

Í tillögunum sem við kynntum í dag leggjum við einmitt til að brugðist verði við eðlilegum óskum stjórnenda Landspítalans um frekara fjármagn til rekstrar og viðhalds spítalans. Það er satt að segja með ólíkindum að heyra rökstuddar aðvaranir forstjóra og yfirstjórnar spítalans sem hafa áunnið sér traust með vönduðum málflutningi á undanförnum missirum og sjá meiri hluta fjárlaganefndar virða þær ábendingar algjörlega að vettugi og koma með einhvers konar hótfyndni í formi 30 milljóna fjárframlags til að gera rannsókn á augljósum staðreyndum sem blasa við öllum sem heimsækja Landspítalann eða þurfa að vera þar.

Við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum heimsótt fjölmargar starfsstöðvar Landspítalans undanfarið ár og það hefur verið ótrúleg upplifun allt frá því að sjá ruslageymslurnar fyrir utan gjörgæsluna og þá aðstöðu að starfsfólk hefur enga starfsmannaaðstöðu þar vegna þess að það hefur fórnað henni til að geta boðið aðstandendum alvarlega veiks eða slasaðs fólks einhvern stað til að sitja á yfir í að sjá bráðamóttökuna þar sem álagið er slíkt að orð fá því vart lýst. Það er okkur ekki til sóma að mæta ekki eðlilegri uppbyggingarþörf eða viðhaldsþörf innan Landspítalans og þess vegna leggjum við í stjórnarandstöðunni til breytingu þar að lútandi.

Við leggjum líka til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki með sama hætti og lægstu laun á næsta ári eins og við lögðum einnig til við fjáraukalagaafgreiðsluna hér fyrr í dag. Það var mjög athyglisvert að heyra hæstv. fjármálaráðherra koma hingað eftir að hann hafði verið kreistur upp í ræðustólinn vegna hinnar áberandi fjarveru stjórnarliða úr ræðustólnum, þegar hann reyndi að halda því fram að vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt annað en að veita bara fé til þess að þær skerðingar, sem hvort eð er voru tímabundnar aðhaldsaðgerðir í kjölfar efnahagshruns, rynnu út eins og löngu hafði verið ákveðið í lögum væri búið að færa lífeyrisþegum einhverjar slíkar kjarabætur að þeir stæðu miklu framar öllum öðrum í samfélaginu. Hann stóð hér eins og reigður hani á haug og reyndi að flytja okkur þau skilaboð að elli- og örorkulífeyrisþegar væru vegna þessara leiðréttinga komnir í þá stöðu að þeir ættu ekki að fylgja almennri launaþróun í landinu. Það er algjörlega fráleit túlkun og jafnvel þrátt fyrir skerðingar sem voru með tekjutengingum tímabundnar aðgerðir í kjölfar efnahagshruns voru lágmarksbæturnar látnar fylgja lágmarkslaunum á síðasta kjörtímabili eins og ég rakti í atkvæðaskýringu í dag. Að baki efnislegum ástæðum þessarar reigingslegu atkvæðaskýringar hæstv. fjármálaráðherra er ekki neitt. Mikilvægt er að minna á að allt frá hruni hafa lágmarksbætur almannatrygginga ekki verið skertar í aðhaldsaðgerðum og þær voru látnar fylgja þróun láglaunasamninganna árið 2011 þegar gerðir voru sérstakir láglaunasamningar og það var umfram lögbundna skyldu ríkisins. Þá var tekin til þess efnisleg afstaða í ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Við leggjum líka til breytingar á bótakerfunum, að mæta barnafjölskyldum með tvíþættum aðgerðum í þetta sinn. Annars vegar leggjum við til hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þús. kr. og hins vegar hækkun á skerðingarviðmiðum barnabóta þannig að barnabætur byrji ekki að skerðast fyrr en við 270 þús. kr., lágmarkslaun.

Tökum það fyrra, hækkun á þaki fæðingarorlofs. Ríkisstjórnin hækkaði þak fæðingarorlofs um 20 þús. kr. stuttu eftir að hún tók við, úr 350 þús. kr. í 370 þús. kr. Síðan hefur það staðið óhreyft og núna blasir við miðað við fjárlagafrumvarpið að þessi fjárhæð þaks standi óbreytt í þrjú heil almanaksár, taki engum verðbótum þrátt fyrir alla þá þróun sem hefur verið í kjaramálum allan þann tíma.

Hækkun á 370 þús. kr. í 500 þús. kr. í þakinu kann að virðast mikið stökk við fyrstu sýn en það er vert að minna á að þegar við lögðum sumarið 2009 fram frumvarp um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum og lækkuðum þakið tímabundið niður í 350 þús. kr. var sú tala valin vegna þess að 350 þús. kr. svöruðu til 80% af meðallaunum í landinu. Núna svara 500 þús. kr. til 80% af meðallaunum í landinu eins og reiknað er með að þau verði um mitt næsta ár. Hér er því fyrst og fremst um að ræða eðlilegar verðbætur á þessu þaki sem hefði auðvitað átt að gerast á hverju ári eins og aðrar verðlagsuppbætur fjárlaga, en það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún hefur vanrækt verðlagsuppbætur og þar af leiðandi veikt enn frekar fæðingarorlofskerfið.

Sama þróun hefur verið áberandi hjá ríkisstjórninni í öðrum almennum tekjudreifingarstuðningskerfum. Nú þarf maður að fara að tala varlega vegna þess að af hálfu stjórnarmeirihlutans er búið að búa til einhverja kenningu um að bætur séu bara fyrir lágtekjufólk og það eigi ekki að borga bætur neinum nema bláfátæku fólki. Bætur eiga að vera ölmusa handa þeim sem ekki hafa framfærslu að öðru leyti. Við heyrðum þetta í frammíkalli frá hæstv. fjármálaráðherra í dag þegar hann talaði um að það sem við vildum gera væri að láta hátekjufólk fá barnabætur. Barnabótakerfið er nú orðið svo skekkt og skakkt að barnabætur hjóna með eitt barn byrja að skerðast við 200 þús. kr. mánaðartekjur, langt undir lágmarkslaunum, og skerðast að fullu við 409 þús. kr. Þá hverfa þær. Ég endurtek vegna þess að fólk verður dálítið sjokkerað við að heyra þetta: Barnabætur hjóna með eitt barn byrja að skerðast við 200 þús. kr. þannig að það er bara allra fátækasta fólkið sem fær óskertar barnabætur og við 409 þús. kr. eru þær skertar að fullu. Skerðingarlínan er áþekk hjá hjónum með fleiri börn en skerðast þá að fullu samt sem áður rétt yfir því sem eru meðallaun í landinu.

Það er einhver hugsunarvilla hjá stjórnarmeirihlutanum um eðli barnabóta, vaxtabóta og fæðingarorlofs. Þetta eru ekki framfærslukerfi til að bæta lágtekjufólki upp léleg laun eins og mér sýnist stjórnarmeirihlutinn vilja breyta þeim í. Stjórnarmeirihlutinn ætlar að feta leiðina sem Íhaldsflokkurinn er að feta í Bretlandi um að breyta almennum félagslegum stuðningi í ölmusu til að niðurgreiða hörmungarlaun og gera sjóræningjafyrirtækjum kleift að hafa fólk á óboðlegum, lágum launum, en hætta að styðja fólk með meðaltekjur. Forsendur íslenskrar samfélagssáttar, þríhliða samstarfs á vinnumarkaði, alveg frá því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra stóð að samkomulagi 1966, hafa verið um opinberan stuðning við húsnæðisöflun þorra fólks og síðar hefur þetta birst í barnabótum sem voru mjög almennar, t.d. eftir breytingarnar á skattkerfinu sem hófust í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar. Það sem hér er um að ræða er algert fráhvarf frá þeirri stefnu sem hinn gamli Sjálfstæðisflokkur fylgdi í opinberum stuðningi við meðaltekjufólk. Þetta er síðan ótrúlegt ef horft er á sögu Framsóknarflokksins og verk Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar í ríkisstjórnum eða Eysteins Jónssonar eða Hermanns Jónassonar þannig að hér er verið að innleiða hugmyndafræði sem er algert brot gagnvart áratugalangri sögu aðkomu hins opinbera að afkomustuðningi í landinu. Hann hefur byggst á því, rétt eins og á Norðurlöndunum hvað barnabætur varðar, að ríkið mætti kostnaði fólks af því að eiga börn jafnvel þó að barnafjölskyldur séu með há laun.

Á ákveðnum tímum við efnahagslega niðursveiflu hafa menn síðan freistast til þess að tekjutengja barnabætur í vaxandi mæli. Þessa gætti sérstaklega í niðursveiflunni 1992–1993, á aðhaldsárunum þá, en það var mikið óyndisúrræði og þótti ávallt brýnt að hverfa frá því á nýjan leik. Það var alltaf yfirlýst markmið með barnabótum hér rétt eins og annars staðar í Norður-Evrópu að mæta viðbótarkostnaði fólks af því að eiga börn og annast þau án tillits til þess hvort fólk væri of blankt til að eiga börn yfir höfuð.

Alveg með sama hætti voru vaxtabætur hugsaðar sem framlag ríkisins til að bera vaxtakostnað sem hér hefur alltaf verið miklu hærri en í nágrannalöndunum, framlag ríkisins til að hægt væri að eignast íbúðir við hávaxtastig íslenskrar krónu. Þetta hefur gegnumgangandi verið umsamið í kjarasamningnum og þess vegna hafa vaxtabætur farið mjög hátt upp tekjustigann. Breytingin sem hefur orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar er að ekki hafa verið sjálfvirkar verðbótauppfærslur á tekjuskerðingarmörkum í vaxtabótakerfinu og þess vegna hefur það gerst, eins og við upplifum hér við fjárlagagerðina í dag, að vaxtabætur ganga af vegna þess að þær ganga ekki út. Þetta árið var það vegna þess að fasteignamatið hækkaði, ekki vegna þess að skuldaniðurfellingin væri að virka heldur vegna þess að það myndaðist óvart pappírsleg eign. Fólkið situr eftir með jafn mikla greiðslubyrði og áður en ríkið sparar sér peninga. (Gripið fram í.)

Fæðingarorlofið var sett á til að tryggja að allur þorri fólks af báðum kynjum hefði kost á því að sinna börnum sínum í fæðingarorlofi. Sú aðgerð hafði því bæði jafnréttispólitískt markmið og framfærslulegt. Á niðurskurðartímanum eftir 2009 urðum við því miður að velja jafnréttismarkmiðið eða framfærslumarkmiðið og nauðbeygð í tímabundnum aðhaldsaðgerðum kusum við framfærslumarkmiðið. Það var engin skerðing á fæðingarorlofi hjá fólki sem var undir meðaltekjum vegna þess að þakið hitti bara fyrir þá sem voru í meðaltekjum og ofar.

Þetta var vissulega ófullkomin lausn en við prófuðum margar aðrar. Stytting fæðingarorlofsins var enn verri kostur og reynslurökin benda til þess að þetta hafi líklega verið illskásta leiðin. En það er algerlega óafsakanlegt að láta það lága þak sem þannig var búið til í sögulegri kreppu lifa óverðbætt árum saman á mestu uppgangsárum Íslandssögunnar. Það er það sem við gerum ágreining um.

Svo sjáum við núna að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra eru búin að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að kokka saman einhverja furðulega skýrslu um að það sé best að slíta friðinn á íslenskum vinnumarkaði, hætta algjörlega að greiða nokkrar bætur til meðaltekjufólks og þjappa öllum opinberum stuðningsgreiðslum til þeirra sem eru allra verst settir. Með því er vegið að rótum hins norræna velferðarkerfis. Forsendurnar fyrir hinu norræna velferðarkerfi voru sameiginleg örlög meðaltekjufólks, millitekjustéttanna og þeirra sem minnst höfðu. Við vitum af hinni pólitísku sögu, að ef opinber stuðningur nýtist bara agnarsmáum eða til þess að gera afmörkuðum hópi þeirra sem allra verst standa hrynur pólitíska samstaðan um velferðarstuðninginn sem og vilji meðaltekjufólksins til að leggja af mörkum inn í kerfi sem það fær ekkert út úr sjálft. Þess vegna hafa öll norræn samfélög jafnaðar og félagslegs réttlætis farið þá leið að tryggja almennan stuðning. Það er mjög athyglisvert innlegg af hálfu ríkisstjórnarinnar inn í það alvarlega ástand sem nú er á Íslandi, þegar ungt fólk er í vaxandi mæli, þótt atvinnuástand sé gott, að finna sér framtíð annars staðar vegna þess að þar bjóðast betri laun, betri barnabætur, lengra fæðingarorlof og ódýrari leikskóli. Þarf ég að halda áfram? Í Danmörku býðst aðgangur að námsstyrkjum fyrir utan húsnæði á kjörum sem eru þannig að menn spara sér eina heila íbúð á starfsævinni. Ef þeir kjósa að eignast sína fyrstu íbúð í útlöndum komast þeir upp með að borga rétt rúma eina íbúð ef allt er talið, en hér þurfa þeir að borga rétt rúmar tvær.

Eru það þá skilaboð þessarar ríkisstjórnar að hengja enn frekari sandpoka á þá kynslóð sem nú þegar er farin að sjá sér þann kost vænstan að eiga framtíð í öðrum löndum? Eru það skilaboð þessarar ríkisstjórnar að hér eigi í einu Norðurlandanna ekki að vera neitt stuðningskerfi sem tekur til meðaltekjuhópa hvað varðar barnabætur, vaxtabætur eða fæðingarorlof? Það mun hafa mjög alvarleg áhrif á íslenskt samfélag og mér þykir sérkennilegt að sjá hversu þegjandi og hljóðalaust þessi hugmyndafræðilega endurnýjun hefur átt sér stað hjá stjórnarmeirihlutanum án þess að um hana hafi farið fram nokkur rökræða í samfélaginu, án þess að um þetta hafi nokkurn tímann verið rætt opinberlega í stefnumarkandi plöggum þessara stjórnmálaflokka sem hafa alltaf talað fyrir öðru. Þetta er auðvitað verulegt varnaðarskot gagnvart verkalýðshreyfingunni sem nú reynir að verja raunvirði kjarabóta í því umróti sem ríkisstjórnin hefur skapað á almennum vinnumarkaði.

Mig langar síðan aðeins að drepa stuttlega á ýmsa aðra þætti úr tillögum okkar í stjórnarandstöðunni við fjárlagagerðina en eyða mestu púðri í lokin í skattamálin. Við gerum ráð fyrir umtalsverðri hækkun til háskóla og fjárveitingum til að aflétta fjöldatakmörkunum í framhaldsskóla. Það er engin ástæða til að útiloka fólk yfir 25 ára aldri frá framhaldsskólanámi og það er engin ástæða til að horfa upp á fækkun framhaldsskólanemenda eins og við sjáum í dag. Þetta stafar af pólitísku vali alveg eins og það var engin tilviljun að vorið 2014 varð 35% aukning í útskrifuðum stúdentum í Háskóla Íslands miðað við árið 2009. Takið eftir, á mestu samdráttarárum og mestu niðurskurðarárum Íslandssögunnar jókst fjöldi útskrifaðra stúdenta úr Háskóla Íslands um 35%. Það var vegna þess að við tókum pólitíska ákvörðun um að opna skólana og skapa fleirum tækifæri til að bæta við sig þekkingu á þessum erfiðleikatímum til að létta á vinnumarkaðnum og fjárfesta í menntun og þekkingu.

Við leggjum líka til fjárfestingar í innviðum. Sóknaráætlun fær viðbótarfé sem er mikilvægt og við leggjum til viðbót í viðhaldi og nýframkvæmdum í vegagerð, alvöruframlög vegna loftslagsvandans til að Ísland geti mögulega staðið við eitthvað af þeim fyrirheitum sem stjórnvöld gefa vonandi í París nú í vikunni og leggjum fram ýmis önnur réttlætismál. Af þeim ætla ég bara að nefna tvennt hér vegna þess að það er farið að sneyðast um tíma, aukin framlög til móttöku flóttamanna og aukins stuðnings við innflytjendur annars vegar. Það er mjög mikilvægt í ljósi þess að við vitum um vandann í flóttamannamálum. Um 35% umsækjenda eru flóttamenn frá löndum sem eru talin örugg en eru sem sagt fólk sem býr við kröpp kjör og vill komast til betri aðstæðna. Því fólki er undantekningarlaust hafnað eins og staðan er í dag og það er engin ástæða til að draga meðferð þeirra mála von úr viti til þess eins að fólk upplifi réttmætar væntingar um að fá að vera hérna. Ef aldrei stendur til að það fái að vera hérna er mannúðlegra, eðlilegra og sanngjarnara að afgreiða málin hratt og örugglega, gæta að sjálfsögðu að öllum kærufrestum og réttum málsmeðferðarreglum í dómskerfinu en afgreiða málin án óeðlilegs dráttar. Til þess þarf viðbótarfjármagn. Það þarf líka aukinn stuðning við innflytjendur til að auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur til að tryggja að við getum unnið gegn útlendingaandúð og ótta að innflytjendur sem búa hér nú þegar fái tækifæri til að læra íslensku og laga sig að íslensku samfélagi.

Hins vegar vil ég nefna litlu fjárveitingarnar sem við leggjum til til frumkvæðisathugana umboðsmanns Alþingis. Það er alveg skýrt í mínum huga að eftir að umboðsmaður tók upp athugun á embættisfærslum þáverandi hæstv. innanríkisráðherra og komst að niðurstöðu um misbeitingu hennar á valdi varð það sérstakt keppikefli stjórnarmeirihlutans að passa að hann hefði ekki svigrúm til að ráðast á nýjan leik í frumkvæðisathuganir af þessum toga. Orðin sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra létu falla um umboðsmann, um verklag hans og vinnubrögð á þeim tíma meðan rannsóknin stóð yfir, eiga sér ekki fordæmi í vestrænum lýðræðisríkjum. Þegar sú aðför að sjálfstæði umboðsmanns fær síðan fulltingi í niðurskurði á fjárframlögum til að sinna frumkvæðisathugunum er ekki hægt að draga nema eina ályktun. Orðspor Íslands er hér í húfi, orðspor okkar sem lands sem virðir mannréttindi og réttar leikreglur, virðir stjórnfestu og góða stjórnarháttu. Það er full ástæða til að taka þessa framgöngu stjórnarmeirihlutans upp við eftirlitsmenn á vegum alþjóðastofnana sem fylgjast með stjórnarháttum og einræðistilburðum í aðildarríkjum Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Ég vil beina því til þeirra þingmanna sem þar eiga sæti að koma þessum ábendingum á framfæri við þær stofnanir.

Virðulegi forseti. Að síðustu ætla ég að eyða nokkrum orðum í að tala um skattstefnu þessarar ríkisstjórnar. Hún er athyglisverð í meira lagi. Engin ríkisstjórn, a.m.k. ekki frá 1940, hefur haft jafn afgerandi áherslu í þágu framleiðenda, þá meina ég framleiðenda í ákveðnum atvinnugreinum, og borið hag þeirra fyrir brjósti umfram hagsmuni viðskiptalífs í heild eða þjóðarinnar allrar. Það sem einu sinni var þekkt í Sjálfstæðisflokknum, neytendaviðhorf, viðhorf frjálsrar samkeppni, viðhorf verslunarfrelsis, hefur verið kúskað niður í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta er kjörstjórn framleiðendanna, alveg eins og var þegar Ólafur Thors og Jónas frá Hriflu sátu saman í bankaráði Landsbankans og pössuðu hvor um sig útgerðarauðveldið og Sambandið og Sláturfélag Suðurlands, deildu almannafé til vildarvina og byggðu sitt pólitíska veldi í kringum slíkar útdeilingar. Sú stjórnmálastefna hefur gengið í endurnýjun lífdaganna í tíð þessarar ríkisstjórnar og ekkert sýnir það betur en skattstefnan.

Þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hér í gær út í lækkun tryggingagjaldsins sem 300 fyrirtæki hafa óskað eftir að verði forgangsverkefni, sem öll heildarsamtök atvinnulífsins hafa óskað eftir að verði forgangsverkefni, sagði hann að til þess væri ekki fjárhagslegt svigrúm. Fjárhagslegt svigrúm ræðst hins vegar af því með hvaða hætti skattstefnan virkar og tryggingagjaldið er skattur sem leggst vissulega á fyrirtæki en mjög misjafnlega. Hann leggst miklu þyngra á lítil fyrirtæki en stór þannig að hann er sérstakur skattur á smáfyrirtæki, nýrri fyrirtæki. Hann leggst þyngra á þekkingarfyrirtæki en önnur vegna þess að eðli málsins samkvæmt er fleira fólk í þekkingarfyrirtækjum en öðrum. Tryggingagjaldið mismunar atvinnuvegum. Launakostnaður er gjarnan 80% í þekkingarfyrirtækjum. Hann er 8% í álverinu í Straumsvík. Á sama tíma og þessi ríkisstjórn segir að ekki sé svigrúm til að lækka tryggingagjaldið lætur hún raforkuskattinn renna út sem stóriðjan hefur greitt. Af hverju er svigrúm til þess en ekki til að lækka tryggingagjaldið um sömu upphæð? Af hverju vill ríkisstjórn þessara afturhaldsafla leggja sérstaka skatta á þekkingarfyrirtæki og aðföng þeirra en hlífa stóriðjunni við skattlagningu á aðföng hennar? Hvað gerir stóriðjuna svona miklu betri og merkilegri sem atvinnugrein að hún skuli njóta skattfrelsis á sín aðföng á meðan þekkingarfyrirtækin eiga að borga refsiskatta á sín? Ef afstaða ríkisstjórnarinnar væri sú að ekki væri hægt að lækka tryggingagjaldið vegna þess að til þess væri ekki svigrúm í ríkisrekstrinum er einföld leið til að leysa það. Hún er sú að leggja einhverja aðra skatta á. Það má hækka tekjuskatt á fyrirtæki, það má hækka tekjuskatt á einstaklinga og lækka tryggingagjaldið á móti. Þá er í það minnsta verið að leggja skatt á hagnað sem orðið hefur til, arð af vinnu eða arð af framleiðslu. En það er bara verið að leggja skatt á aðföng sumra fyrirtækja með því að halda tryggingagjaldinu svona háu.

Hvað með útgerðarfyrirtækin? Þar er þessi ríkisstjórn líka í þeim sérstaka leiðangri að lækka álögur á útgerðina. Tryggingagjaldið vegur ekki jafn þungt þar og hjá þekkingarfyrirtækjum vegna eðlis rekstrarins. Þegar við sjáum síðan að veiðigjöldin eru komin niður í 7 milljarða á þessu ári en hagnaður útgerðarinnar, búhnykkur hennar vegna lægra olíuverðs, er 10 milljarðar á árinu klórar maður sér í hausnum og hugsar: Hvernig má það vera að ríkisstjórnin er bara tilbúin í einn skatt á atvinnulífið, tryggingagjaldið? Á sama tíma vex upp ný atvinnugrein, ferðaþjónustan. Hún er komin með 32% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, er stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, mjög mikilvægur vaxtarbroddur. En hvað erum við að gera? Látum við hana greiða með notendagjöldum fyrir þá uppbyggingu sem þarf að fara í á ferðamannastöðum og á vegakerfinu til að mæta þessum aukna fjölda ferðamanna? Nei, þar rann ríkisstjórnin á rassinn, kom með óframkvæmanlega hugmynd um náttúrupassa sem allir vissu að gæti aldrei orðið að veruleika, hefur síðan gefist upp á verkefninu með ráðherra í ráðuneytinu sem ekkert hefur gert í þrjú ár nema koma með þessa einu ónýtu hugmynd. Er verið að láta þessa grein greiða eðlilegt framlag til ríkisins? Nei, nei, hún er niðurgreidd. Við veitum af almennu skattfé fjármagn til að byggja upp þjónustu fyrir þessa atvinnugrein, af almennu skattfé sem við gætum verið að veita í heilbrigðisþjónustu eða menntakerfið.

Það má bara skattleggja sumar atvinnugreinar. Aðföng sumra atvinnugreina skulu skattlögð upp í rjáfur, öðrum greinum hlíft og þær greiða ekki einu sinni eðlilega hlutdeild í kostnaði við þjónustu við þær. Þær greiða ekki einu sinni þjónustugjöld. Við búum við vegakerfi sem var ekki hannað fyrir á aðra milljón ferðamanna á ári. Það þarf gríðarlega fjárfestingu í vegum til að aðskilja akstursstefnu til að auka öryggi o.s.frv. Við þurfum að bæta verulega í í uppbyggingu ferðamannastaða. Tækifærið er núna þegar fólkið er að koma og gæti verið að borga fjárhæðir sem hver og einn ferðamaður tæki ekki eftir en við gætum tryggt okkur fjármuni til að byggja upp vel og vandlega ferðamannastaði, forðast ágang, tryggja náttúru og umhverfisvernd. Nei, nei, við skulum bara ríkisvæða það.

Svo tala forustumenn stjórnarmeirihlutans oft og tíðum digurbarkalega um að stjórnarandstaðan sjái ekkert nema aukin ríkisútgjöld og ríkisvæðingu. Heyr á endemi. Það verður til burðaratvinnugrein í landinu og hún er strax tekin á spena ríkisstjórnarinnar. Hún er strax niðurgreidd. Það tekur engu tali að þetta sé atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

Þetta er sú meinlokulega afstaða þar sem allar ákvarðanir stjórnvalda í atvinnumálum og skattamálum eru mældar við hagsmuni örfárra fyrirtækja og samtaka þeirra og þannig ákvarðað hvort þær séu góðar eða slæmar. Þær eru ekki mældar við hagsmuni heildarinnar, ekki við hvað þær geta skilað okkur öllum sem samfélagi, ekki við hvað þær geta gert til að bæta kjör til að fjölga tækifærum fyrir fólkið sem sér ekki framtíð á Íslandi lengur. Nei, nei, þær eru bara mældar við hagsmuni hinna fáu.

Ég ætla ekki að lengja þetta öllu meira, ég sé að það er farið að halla í miðnætti. Þess vegna er sorglegt að sjá þessi fjárlög verða fjárlög hinna glötuðu tækifæra. Það eru ekki tekin gjöld af burðaratvinnugreinum sem ganga í gegnum fordæmalaus velsældartímabil, eins og sjávarútvegurinn til dæmis á þessu ári og eins og ferðaþjónustan hefur gert á undanförnum tveimur árum. Þær eru ekki látnar leggja af mörkum til uppbyggingar innviða í samfélaginu eins og þær ættu að gera. Á sama tíma er skorið niður það velferðarkerfi sem við höfum haft með bótagreiðslum til meðaltekjufólks til að styðja við fólk á ólíkum tímum í lífinu og einkanlega þegar það er að koma sér þaki yfir höfuðið eða eignast börn. Skilaboðin til ungs fólks á meðaltekjum sem þegar þarf að búa við mun lægri laun hér en í nágrannalöndunum eru: Hypjið ykkur bara. Við ætlum að vera hérna áfram með okkar vinum úr stórútgerðinni og öðrum vildarvinum. Við ætlum að reka þetta eins og verstöð fyrir okkur. Komið ykkur burt, verið ekki að hanga hérna.

Það eru dapurleg skilaboð þegar allt fellur með íslenskri þjóð, þegar tækifærin eru ótæmandi og við gætum verið að gera svo margt gott.