145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég skal taka undir það að feður almennt tóku mun styttra fæðingarorlof eftir skerðingarnar. Annað sem ég vildi minnast á núna varðandi breytingartillögur minni hluta eru hinir ýmsu útgjaldaliðir sem eru allt viðbætur. Ég tek undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að það væri mjög gaman að sjá hvaðan fjármögnunin fyrir því kemur. Kemur niðurskurður eða einhver tekjuöflun þar á móti? Ég held það geti verið ábyrgðarfyllra að koma með hugmyndir um fjármögnun. En eins og hv. þingmaður nefndi hefur minni hlutinn ekki gott aðgengi að kostnaðargreiningu þannig að það er erfiðara fyrir okkur í minni hlutanum að koma með slíkar tillögur. Hvernig ætti til dæmis hækka framlög til umboðsmanns Alþingis og fangelsanna? Gæti undirbúningur fyrir viðbyggingu við Alþingishúsið, sem er einhverjar 75 millj. kr. komið þar á móti? Það dekkar það ágætlega, jafnvel þótt byggja ætti meira við Alþingishúsið ættu 75 millj. kr. að fara langleiðina með að gera það fokhelt, þannig að ég veit ekki alveg af hverju þarf að undirbúa viðbygginguna fyrir svona rosalega margar milljónir. Það er eitt dæmi. Það væri gaman að fá einhverjar hugmyndir um hvaðan féð á að koma fyrir öllum þessum viðbótarútgjöldum.