145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er með þó nokkrum trega að ég tek hér til máls vegna þess að ég deili því með virðulegum forseta að hafa miklar mætur á starfsáætlun Alþingis.

Við neyddumst til að ræða starfsáætlun Alþingis alloft í vor sem leið og raunar fram í júlímánuð, sem var sögulegt, að þurfa að ræða um að starfsáætlun væri farin á hliðina og hafa það á dagskrá í fimm vikur að starfsáætlunin væri útrunnin.

Nú er það svo að samkvæmt starfsáætlun er gert ráð fyrir því að við ljúkum hér þingstörfum fyrir jól ekki á morgun heldur hinn. Þrátt fyrir breytt þingsköp og þá staðreynd að hæstv. fjármálaráðherra kemur hér með fyrsta mál þingsins á dagskrá annan þriðjudag í september er það svo að við hófum 2. umr. fjárlaga í gær, 8. desember, bara vegna handarbakavinnubragða hæstv. stjórnarmeirihluta.

Það er því óviðunandi að þingheimur sé settur í þá stöðu að vera að ræða mál hér inn í nóttina þegar ekki er við neinn að sakast nema virðulegan forseta eða þann stjórnarmeirihluta sem hér er við völd.