145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta svarið þó að mér hafi nú ekki hugnast það og vil bara segja að ef forseti vill fá heimild til þess að fara fram yfir miðnætti óska ég eftir að hann geri það með atkvæðagreiðslu. Ég hefði skilning á því ef það yrðu sammæli hér um að halda fundinum áfram til miðnættis og ef forseti getur afmarkað þann tíma með einhverjum hætti þannig að þingmönnum þyki það skaplegt og boðlegt, væri auðvitað hægt að endurskoða þá afstöðu. En ég verð að segja að það er enginn bragur að því að fólk þurfi að halda sína fyrstu ræðu um fjárlög íslenska ríkisins að næturlagi. Ég vil líka segja að stjórnarmeirihlutanum hafa náttúrulega orðið á hrapalleg mistök við hraða afgreiðslu mála hér sem orðið hefur að leiðrétta með neyðarlegum hætti, eins og núna nýverið í lagasetningunni um þrotabú föllnu bankanna þar sem við í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) þurftum að leggja stjórninni lið við að leiðrétta mistökin sem lögfest voru í tímaskorti. Við megum ekki brenna okkur á því eina ferðina enn.