145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á svipuðum nótum og fyrri ræðumaður, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, og ræða um peningamálin. Áður en ég vík að þeim vil ég taka undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur þar sem hún fór ágætlega yfir það sem búið er að gera hér á kjörtímabilinu fyrir eldri borgara og öryrkja. Það verður alltaf ósanngjarn samanburður þegar við erum að tala um rauntölur og svo prósentvís hækkanir þegar kemur að kaupmáttaraukningu tekna.

Ákvörðun peningastefnunefndar í morgun um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,75% er rökfærð með þeim orðum að þrátt fyrir kröftugan hagvöxt og áframhaldandi bata á vinnumarkaði, sem þýðir með öðrum orðum að slakinn sé hverfandi, ef nokkur, hafi verðbólguhorfur batnað frá nóvemberspánni og sem fyrr er það lágt hrávöruverð, lágt verð á olíu og sterkari króna sem heldur aftur af verðhækkunum og vegur þannig á móti innlendum verðhækkunum eða þrýstingi til að velta kjarabótum almennings út í verðlagið. Það eru kannski ekki mikil tíðindi eins og ég sagði en með öðrum orðum er það þannig að alþjóðleg verðþróun er að skila sér í bættum viðskiptakjörum og það heldur aftur af verðhækkunum hér.

Staðan í Evrópu er þveröfug. Í Danmörku hafa stýrivextir til að mynda um langa hríð verið mínus 0,75% með gríðarlegum kostnaði og skaða fyrir danska fjármálakerfið. Það er ekki útséð hvar það endar. Hins vegar vil ég hér í lokin benda á að peningastefnunefndin ákvað að lækka hér bindiskyldu og vonandi verður frekari upplýsingar um þá ákvörðun (Forseti hringir.) að finna í fundargerð peningastefnunefndar.


Efnisorð er vísa í ræðuna