145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fékk í fyrradag svar við fyrirspurn sem ég lagði fram til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um ofbeldi gegn fötluðum konum. Fyrirspurnin var einmitt lögð fram í kjölfar umræðu og umfjöllunar Kastljóss um ofbeldi gegn fötluðum konum.

Það er ýmislegt gott og jákvætt í svari hæstv. ráðherra, svo sem um að Barnahúsi verði veitt fjármagn til að starfsfólk geti aflað sér aukinnar menntunar og þjálfunar til að sérhæfa sig í að veita fötluðum börnum sem grunur leikur á um að hafi verið beitt ofbeldi sérhæfða þjónustu sem og um að það á að prenta og dreifa fræðsluefni til þeirra sem starfa með fötluðu fólki. Þetta er auðvitað ekkert nema jákvætt og gott og blessað.

Það eru hins vegar aðrir þættir í svari ráðherra sem ég tel umhugsunarverða og sem við þurfum að staldra við. Annars vegar er komið inn á að þjónustutilboð þurfi að vera fjölbreytileg og notendastýrð persónuleg aðstoð þar nefnd. Hv. þm. Páll Valur Björnsson fór reyndar í ræðunni á undan mér ágætlega yfir það hvar það verkefni er statt.

Svo er annað. Í svari ráðherra segir:

„Ekki verður gert of mikið úr mikilvægi þess að fatlað fólk búi við heimilisaðstæður sem líkastar því sem almennt tíðkast. “

Hæstv. forseti. Til að það sé hægt þarf fatlað fólk að búa við kjör sem eru sem líkust því sem almennt tíðkast í samfélaginu og þau eru ekki upp á 170–190 þús. kr. í framfærslu á mánuði. Það verður alltaf að fjalla um það sem snýr að fötluðu fólki í heild. Það er ekki hægt að taka það út og tala um (Forseti hringir.) það í litlum boxum. Þegar við erum að tala um hvernig við ætlum að koma í veg fyrir ofbeldi verðum við líka að tala um hvernig fötluðu fólki er gert kleift að lifa með reisn í íslensku samfélagi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna