145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í gær var atkvæðagreiðsla um afturvirka uppfærslu launa fyrir elli- og örorkulífeyrisþega og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þar tók hann til hin ýmsu góðverk ríkisstjórnarinnar frá árunum 2013 og 2014 og því um líkt sem aðrir þingmenn hér, hv. þingmenn Unnur Brá og Steingrímur J. Sigfússon, hafa þrefað eilítið um.

Hins vegar snýst þetta um árið 2015 og í rauninni í samhengi þeirrar launaþróunar sem hefur gengið yfir alla opinbera starfsmenn, þar á meðal okkur þingmenn. Spurningin var einfaldlega: Erum við tilbúin í sömu kjör og elli- og örorkulífeyrisþegar búa við? Svarið var: Nei.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir vísaði í lög og hæstv. fjármálaráðherra gerði það líka. Hann sagði að elli- og örorkulífeyrir hefði verið hækkaður í samræmi við lög. Þetta er mjög kaldhæðnislegt af því að atkvæðagreiðslan snerist um lagabreytingar, snerist um að setja lög til að bæta laun þeirra á sama hátt og við þingmenn fengum.

Þetta hljómar mjög undarlega í mínum eyrum því að elli- og örorkulífeyrisþega skiptir ekki máli hvort sá peningur sem kemur í budduna hjá þeim (Forseti hringir.) er kallaður laun eða bætur. Þetta er peningurinn sem þau nota til að kaupa fyrir og hafa ofan í sig og á. Málið snerist um réttlæti, það sama og þingmenn og aðrir opinberir starfsmenn fengu, og svarið var: Nei.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna