145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í hinni margumtöluðu málaþurrð ríkisstjórnarinnar sem hefur oft verið rædd hér hefur samband Alþingis við ríkisstjórn orðið mér hugleikið. Mér finnst í sjálfu sér skrýtið að þingmenn kvarti undan málaþurrð frá ríkisstjórn. Ef Alþingi og ríkisstjórn væru í því sambandi sem maður gæti búist við af því að lesa stjórnarskrá ætti Alþingi í raun að líta á sjálft sig sem yfirmann ríkisstjórnarinnar. Stundum er það svo í töluðu orði en í reynd er það ekki þannig. Í reynd ræður ríkisstjórnin landinu.

Algengasta spurningin sem ég fæ í sambandi við næstu kosningar, alþingiskosningar 2017, er hvern ég sjái fyrir mér sem hinn eða þennan ráðherrann. Ég segi oft á móti: Þetta er röng spurning. Spurningin sem við eigum að spyrja okkur er: Hvernig sérðu fyrir þér samband Alþingis og ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili? Ef við veltum þeirri spurningu alvarlega fyrir okkur er aukaatriði í bili nákvæmlega hver verður ráðherra. Það verður aðalatriði hvernig farið verður með valdið, hvernig ákvarðanir verða teknar, hvernig mótvægi og aðhald verður á löggjafarþinginu og í ríkisstjórn. Hvernig látum við Alþingi virka sem raunverulega æðstu stofnun landsins? Við gerum það ekki með einhverjum fabúleringum um það hver verði næsti ráðherra hér eða þar, þá eða þegar, við gerum það með því að skoða grundvallaratriðin, skoða kerfið sem við vinnum eftir, grunnreglurnar sem Alþingi vinnur eftir, sem lýðveldið vinnur eftir sem og ríkisstjórnin.

Að mínu mati kallar það á breytingar á borð við þær að skilja milli ríkisstjórnar og Alþingis, að ráðherrar séu ekki þingmenn. Það er umræða sem við ættum að taka hér oftar og í meira lagi.

Þess vegna langar mig enn og aftur að stinga upp á því, virðulegi forseti, að við förum að tala um störf þingsins og fyrirkomulagið á Alþingi sem sjálfstæð mál. Við eigum að einbeita okkur að því þar til við erum búin að finna út úr því hvernig við ætlum að láta þetta virka. Mér finnst þetta ekki virka eins og er.


Efnisorð er vísa í ræðuna