145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ásamt öðrum átti ákveðið frumkvæði að því að sú fjárfestingaráætlun var samþykkt. Hún gekk út á mjög einfalda hugmyndafræði, að réttlætanlegt væri að taka hlut af arði af eigum ríkisins, annars vegar fiskveiðiauðlindinni og hins vegar fjármálakerfinu, til að fjárfesta í innviðum og samkeppnissjóðum í atvinnulífinu sem skapar arð í framtíðinni.

Við erum að horfa upp á það núna, sem var auðvitað hægt að segja sér á þeim tíma og er enn hægt að segja sér, að skortur á fjárfestingu, nauðsynlegri fjárfestingu og skortur í viðhaldi er auðvitað ekkert annað en lántaka. Það kemur alltaf að skuldadögum í þessu og þörfin bara vex.

Við værum að horfa upp á allt annað landslag núna í fjárfestingum í innviðum ef við hefðum haldið okkur við þá áætlun. Hún gekk út á — hvað? Taka arðinn að hluta til og fjárfesta í þessu og það hefur allt gengið eftir hvað varðar arðinn. Fjárfestingaráætlun var sett fram með þeim fyrirvara að arðurinn skilaði sér og hann hefur skilað sér og gott betur (Forseti hringir.) og arðurinn af fiskveiðiauðlindinni, að hluta til, sem átti að ráðstafa í þetta hefði getað skilað sér líka.

Hv. þingmaður talar um aðrar áherslur varðandi þetta fé. Hverjar eru þær?