145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:42]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þessa fyrirspurn. Í fyrsta lagi varðandi húshitunina höfum við náð óskaplega stórum áfanga í þeim efnum, eins og hv. þingmaður rakti réttilega. Við gerðum það fyrst og síðast með því að jafna dreifikostnað milli þéttbýlis og dreifbýlis og það eru verulega stórir áfangar sem við höfum náð nú þegar.

Jöfnun húshitunarkostnaðar, þegar við stígum lengra inn í það verkefni, er miklu stærra mál. Það er stór ákvörðun að ákveða hvort við ætlum að fara að greiða niður ákveðnar dýrar hitaveitur o.s.frv. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða það neitt frekar en reyna að svara seinni spurningunni.

Nei, það mun ekki taka 10–15 ár þótt það séu í ár 500 milljónir til úrbóta í fjarskiptum, einfaldlega vegna þess og ég benti á það í ræðunni að það eru lagðar til ákveðnar fjármögnunarleiðir í tillögunni sem var skilað til innanríkisráðherra og innanríkisráðherra hefur haft til meðferðar, sem eru m.a. framlag markaðsfyrirtækjanna sem munu eiga ljósleiðaratengingar framtíðarinnar og (Forseti hringir.) notenda þeirra sem því kerfi munu tengjast.