145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þingmaður erum mjög oft sammála.

En fyrst til þess að reyna að svara ágætum spurningum hennar segi ég að um 50 millj. kr. framlagið fengum við þær upplýsingar að ekki væri búið að nota þá fjármuni sem höfðu verið lagðir til og þess vegna var ekki beðið um meira. Við getum síðan haft allar skoðanir á því.

Ég var að reyna að rekja það áðan, og ég veit að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vann að því ásamt allri atvinnuveganefnd, að í ályktun okkar um byggðamál sem nefndin undirbjó töluðum við mikið um að leita þyrfti leiða til að styðja við byggð í þeim héruðum landsins sem ekki njóta úrbóta fiskveiðistjórnarkerfisins.

Við erum að opna einn glugga í þá átt, t.d. að skoða eignasafn ríkisins í jarðasafni þess, hvort við getum fundið þar farveg og hvernig við ætlum að beita þeim til þess að efla byggðina o.s.frv.

Er ásættanlegt að nota launahækkanir sem afsökun fyrir athafnaleysi í samgöngumálum? Ég ætla að segja enn og aftur: Auðvitað verðum við að standa við gerða kjarasamninga og við notum ekki peningana oft. (Forseti hringir.) Við notum þá aðeins einu sinni og það er aðalvandamálið sem við erum að fást við. (Gripið fram í.)