145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sem var mjög góð miðað við það hvað hann hafði lítinn tíma til að undirbúa sig. Ég verð að segja að mér finnst vonbrigði hvernig safnliðirnir eru komnir aftur inn í fjárlaganefndina. Ég var mjög hlynnt þeim breytingum sem farið var í á síðasta kjörtímabili að færa safnliðina undir ráðuneytin þannig að það væru einhverjir verkferlar og allir væru þannig séð jafnir, gætu sótt um í sjóði eða á safnliði, þetta væri allt undir stjórnsýslulögum. Það var farið í það við síðustu fjárlagagerð að taka marga liði aftur inn sem snúa að félagasamtökum og öðru. Nú er stigið enn stærra skref sem mér finnast vera mikil vonbrigði.

Ég hlýt að spyrja: Treystum við ekki ráðuneytunum og ráðherrunum til að hafa umsjón með þessum safnliðum því að það er mikill freistnivandi fyrir þingmenn í meiri hluta að hafa þennan aðgang að skattfé? Þetta eykur ekki traust á Alþingi, (Forseti hringir.) finnst mér, þegar við erum búin að setja okkur aftur í þessa stöðu sem við vorum í raun búin að koma okkur úr.