145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hefði viljað að við hefðum þá bara tekið þá umræðu, hvort þurft hefði að styrkja það ferli sem er í gangi í ráðuneytum enn betur. Það er ekki eins og nú sé búið að redda öllum þriðja geiranum. Ég vek athygli á því að á meðan verið er að setja 15 milljónir í að greiða upp rekstrarhalla hjá einu safni þá fá skáldahúsin á Akureyri ekki krónu, hvorki frá ráðuneytinu né fjárlaganefnd. Það verður aldrei jafnræði í þessu með þessu móti.

Ég hefði viljað að við hefðum að minnsta kosti tekið þessa umræðu, skoðað kosti og galla, hvernig þetta var að ganga í staðinn fyrir að nú er einhvern veginn búið að taka goms af öllum eða mjög mörgum safnliðum aftur inn og það eru einhverjar sex manneskjur sem hafa um það að segja hvernig fjármunirnir raðast niður. Mér finnst það ekki gott. Ég held að við þurfum að ræða þetta frekar því að ég held að ekki sé sátt um þessi vinnubrögð.