145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg sama hvaða breytingartillögur við ræðum hér í þessum þingsal sem koma frá meiri hlutanum, og þær eru fjölmargar eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanns, þá er það meiri hluti fjárlaganefndar sem leggur þær fram. Það er alveg sama hvort það eru stórar eða litlar tillögur.

Virðulegur forseti. Ég tel tímabært að taka umræðu um þriðja geirann almennt og hvort ekki sé ástæða til þess að þau fjölmörgu félagasamtök, söfn, setur og litlu öflugu aðilar sem eru að blómstra vítt og breitt um landið — hvernig við getum stutt sem best við bakið á þeim. Ég held að sú aðgerð sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili, þegar kemur að þessu, hafi einfaldlega orðið til þess að veikja mörg þessi öflugu félög, og hv. þingmaður nefnir eitt þeirra hér, á Akureyri. Ég held þetta hafi orðið til þess að veikja þessa litlu aðila sem eru máttarstólpinn í þessari ferðaþjónustu og í því að dreifa ferðamönnum vítt og breitt um landið.

Ég hef fundið fyrir því, alla vega hjá forustu fjárlaganefndar, að þetta sé verkefni sem við ættum að skoða strax á nýju ári, hvort ekki sé skynsamlegt að koma þessu í nýjan og betri farveg en þann sem því var komið í á síðasta kjörtímabili. Að því leyti tek ég undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur.