145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að fyrri tillagan sem hv. þingmaður kom inn á sé einhvers konar leiðrétting. Hún er komin frá ríkisstjórn og er leiðrétting sem er ekki há fjárhæð, þ.e. 200 þúsund. Seinni liðurinn sem komið var inn á snýr að því að veita aukið fjármagn til ýmissa atriða sem fer til menntamálaráðuneytisins.

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni er reyndar vorkunn vegna þess að hún var ekki hér á síðasta kjörtímabili. Í andsvörum á undan andsvörum hv. þingmanns var gagnrýnt sérstaklega að fjárveitingar væru veittar til einstakra verkefna og þau skilgreind nákvæmlega í fjárlagafrumvarpinu. Þarna er hins vegar verið að gera hið gagnstæða. Það er verið að veita fjármagn inn til ráðuneytis sem sagt er að sé tímabundið framlag til ýmissa styrkveitinga sem ráðuneytið útfæri nánar. Þetta er akkúrat það sem gert var á síðasta kjörtímabili þegar auknar fjárveitingar voru veittar til ráðuneytanna sem átti síðan að útfæra nánar. (Forseti hringir.) Þarna er bara verið að bæta í þá potta sem menntamálaráðuneytið hefur og voru í rauninni stærstu pottarnir á sínum tíma. Stærstu safnliðapottarnir (Forseti hringir.) á sínum tíma, sem fóru til ráðuneytanna, voru einmitt pottarnir til menntamálaráðuneytisins. (Forseti hringir.) Fjárlaganefnd hefur ekki mikið eftirlit með því hvernig þeim fjármunum er varið.