145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að þegar menn fluttu þessa safnliði inn í ráðuneytin hafi það einmitt gert að verkum að verulega dró úr gagnsæi. Ég held að það sé full ástæða, og hef komið inn á það í ræðu minni, til að við tökum umræðuna um það hér með hvaða hætti sé skynsamlegast að koma betur til móts við lítil söfn og setur allt í kringum landið. Miðað við það sem maður heyrir og áherslurnar frá sveitarfélögunum o.fl. þá hefur dregið verulega úr stuðningi ríkisins við uppbyggingu í mörgum hinum dreifðu byggðum síðan þetta fluttist yfir í ráðuneytin. Því miður er það svo.

Varðandi það að hafa allt landið undir vil ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan og hefur komið fram hjá forsvarsmönnum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði, að þetta gæti verið fordæmi fyrir önnur svæði sem glíma við sambærilega fólksfækkun. En það er ekki þannig að öll landsbyggðin hafi (Forseti hringir.) verið að glíma við sömu fólksfækkun, eins og Þóroddur Bjarnason hefur bent á. Það eru fyrst og fremst svæði á landsbyggðinni (Forseti hringir.) sem glíma við verulega fólksfækkun. Þetta er eitt þeirra og gæti verið (Forseti hringir.) fordæmi fyrir önnur svæði. Þá er það bara jákvætt.