145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði fjálglega um landsbyggðina en mér finnst það ekki alveg endurspeglast í þessu fjárlagafrumvarpi. Þótt hann hafi miklar hugmyndir um uppbyggingu er því miður ekki að sjá það í fjárlagafrumvarpinu. Einnig kom fram hjá honum að búið væri að jafna að fullu húshitunarkostnað á köldum svæðum. Hvar finn ég það í fjárlagafrumvarpinu? Þar sem ég fletti því upp vantar nokkur hundruð milljónir í að jafna dreifingu á rafmagni og í að jafna húshitunarkostnað. Mér finnst ábyrgðarhlutur að fullyrða slíkt þegar þessu verkefni er ekki lokið, þótt skref hafi verið stigin. Það er ekki nóg að samþykkja lög, það er eftir að fjármagna hlutina. Það liggur ekkert fyrir í þeim efnum. Það stendur skýrum stöfum í frumvarpinu.

Af hverju voru dregnar til baka 50 milljónir í verkefnið Brothættar byggðir? Eru ekki næg verkefni þar sem hægt er að nýta þá fjármuni í? Hvers vegna í ósköpunum er verið að kippa þeim út frekar en að nýta þá í þau verkefni sem blasa við?