145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við var eitt af áhersluatriðunum að ráðist yrði í fulla jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og dreifingar raforku. Það hafa komið fram tvö lagafrumvörp þess efnis með hugmyndum sem undirritaður talaði fyrir allt síðasta kjörtímabil, sem miða að því að þetta jafnist sjálfkrafa á húshitun á köldum svæðum. Þau frumvörp hafa verið samþykkt í þinginu og þar er fullkomlega unnið eftir þeim. Frumvörpin fela það í sér að náð verði fullri jöfnun húshitunarkostnaðar. Það að koma hér upp og slengja því fram að þetta sé holur málflutningur eða láta liggja að því (Gripið fram í.) stenst enga skoðun.

Hitt sem hv. þingmaður kom inn á snýr að Brothættum byggðum og dreifðum byggðum og 50 millj. kr. fjármagni sem var ætlað í það verkefni. Virðulegur forseti. Það er verið að veita fjármagn til innviðauppbyggingar í mörgum þessara brothættu byggða. Ég þekki til að mynda eina af (Forseti hringir.) þeim byggðum sem er Dalabyggð. Þar er meðal annars veitt fjármagn í ákveðið verkefni sem það sveitarfélag lagði gríðarlega áherslu á að færi fjármagn í og raunar í tvö verkefni. Það er því verið að fókusera sérstaklega á það sem sveitarfélögin (Forseti hringir.) sjálf lögðu áherslu á þegar þau mættu fyrir fjárlaganefnd. Hv. þingmaður verður auðvitað að kynna sér (Forseti hringir.) það sem þau sögðu þegar þau mættu fyrir fjárlaganefnd og í umsögnum sínum.