145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:06]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er rétt að ég fjallaði ekki mikið um málefni fatlaðra í ræðu minni. Það er svo margt sem hægt væri að ræða og gefa tíma, en málið er vissulega stórt. Sveitarfélögin telja að það vanti um það bil einn milljarð inn í málaflokkinn. Auðvitað er æskilegast að sveitarfélögin gætu sinnt þessari þjónustu, tekið hana að sér, en fjármunir verða að fylgja þjónustu sem á að veita í nærumhverfi. Það þarf að fara vel yfir það, tel ég, í nánu samstarfi við sveitarfélögin hvernig fjárstreymi er best tryggt inn í þennan málaflokk. En það er kannski átakanlegast af öllu að sjá niðurskurðinn til þessa málaflokks í ljósi þess að við virðumst á þessum fjárlögum eiga nóga peninga. Þessi milljarður er alveg til. Þess vegna sætir það ákveðinni furðu, með þetta eins og velflest annað, sem ég hef gagnrýnt í ræðu minni, að ekki skuli vera hægt að sjá af meiri fjármunum til að tryggja lögbundna grunnþjónustu sem lýtur að mannréttindum borgaranna í þessu landi, hvort sem þeir eru fatlaðir, sjúkir, þarfnast menntunar eða hvers annars sem velferðarkerfið hefur upp á að bjóða.