145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég harma það að stjórnarmeirihlutinn sé búinn að blása af fund með Öryrkjabandalaginu og Landssambandi eldri borgara. Þeim samtökum er ekkert að vanbúnaði að koma og hitta þingnefndina og fara yfir sjónarmið sín í málinu. Fulltrúum ráðuneytanna er ekkert að vanbúnaði að mæta á fund fjárlaganefndar. Ef fjárlaganefnd leggur fyrir fulltrúa ráðuneyta að mæta á sinn fund þá mæta ráðuneytin á þann fund þegar hann er boðaður, hvenær sem hann er boðaður og þótt það sé með stuttum fyrirvara. Hins vegar ef stjórnarmeirihlutinn þarf að láta kokka upp einhverjar tölur eða línurit sem ekki eru til uppi í fjármálaráðuneyti af því að hann hefur ekki gögn sem styðja að rökum það sem stjórnarliðarnir hafa verið að segja um það hversu illa sé farið með aldraða og öryrkja í málinu þá horfir það öðruvísi við. Mér fyndist þá rétt að Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalagið kæmu til fundar og stjórnarmeirihlutinn kæmi svo með línurit sín þegar búið er að útbúa þau fyrir hann þótt seinna verði. En ef hægt er að staðfesta fund í hádeginu á morgun er það miklu skaplegra en að fundurinn sé blásinn af (Forseti hringir.) og þetta er líka stuttur fyrirvari, virðulegi forseti.