145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason stal eiginlega af mér glæpnum því að það alvarlega sem fram hefur komið í þessari umræðu er það sem fram kom hjá hv. formanni fjárlaganefndar, að stjórnarliðar hafi gengið til atkvæða um grundvallarspurningar um lífskjör tugþúsunda Íslendinga, aldraðra og öryrkja, án þess að fyrir lægju fullnægjandi gögn frá stjórnarliðinu eða í fjármálaráðuneytinu og það þurfi eftir á að fara að búa til gögn að baki þessari ákvörðun. Það vekur spurningar um hvort Framsóknarflokkurinn sé endanlega orðinn einhvers konar hanskahólf hjá Sjálfstæðisflokknum, hafi enga sjálfstæða stefnu í þessum málum, taki bara við einhverjum tölum sem eru útbúnar í fjármálaráðuneytinu.

Það væri auðvitað réttast að fá aldraða og öryrkja hingað í kvöldverðarhléi eins og ætlunin var og leyfa þeim að kynna sitt mál og fá þessar tölur seinna. Þó er bót í máli að hér er staðfest yfirlýsing af hálfu varaformanns fjárlaganefndar um að fundurinn fari fram í hádeginu á morgun. (Forseti hringir.) Ég treysti því að það verði efnt en harma þann hringlandahátt sem hér hefur verið.