145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt sem sagt var hér áðan að þetta mál snýst ekki um tölur. Þetta snýst um vilja, gott hjartalag og rétta forgangsröðun, það snýst um það. En það er auðvitað mjög sorglegt ef meiri hlutinn hefur ekkert skoðað þann möguleika að hækka bætur aldraðra og öryrkja afturvirkt, að það hafi ekki verið í skoðun hjá stjórnarmeirihlutanum og þess vegna liggi engar upplýsingar fyrir um það. Það er auðvitað furðulegt að fólk geti bara kalt sagt nei og hafi ekki allt síðasta ár skoðað þann möguleika að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirkar hækkanir eins og allir launamenn í landinu sem hafa gert samninga á síðasta ári hafa fengið. Það finnst mér vera til skammar fyrir þennan meiri hluta að hafa ekki einu sinni íhugað það, að hafa ekki einu sinni skoðað þetta. Það kemur núna í ljós þegar menn standa allsberir frammi fyrir þessu, að hafa ekki neinar tölur til að sýna fram á hvað þetta kosti, en stjórnarandstaðan hefur þessar tölur svo menn þurfa ekki að leita langt yfir skammt.