145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég var að mörgu leyti sammála efnistökum hans, þ.e. um hvernig hann vill taka umræðuna um fjárlög og fjárlagagerð, framtíðarsýnina, þó að ég hafi verið óþægilega ósammála honum um margar leiðir sem hann vildi fara í þeim efnum. Það er nefnilega það sem vantað hefur hér almennt í umræðu um fjárlög, ekki bara í þetta skiptið, heldur í gegnum árin, þ.e. að horfa til framtíðar og að við áttum okkur á því hvert verið er að fara í stóru myndinni með fjárlög hvers árs og síðan samhangandi fjárlög þar á undan, hver stefnan er.

Staðan núna er sú að fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutinn vonast til þess að á næsta ári verði ríkissjóður rekinn á pari, nánast á núlli, með 10 milljarða kr. halla, af 700 milljarða kr. tekjum. Það rétt slefar prósenti plúsmegin, þ.e. afgangi, 10 milljarða afgangi. Það rétt slefar 1 prósenti af tekjum. Fyrir tveimur árum 2013, var ríkissjóði skilað í hendurnar á núverandi stjórnendum með 732 milljóna kr. mínus, þ.e. á núlli samkvæmt ríkisreikningi, á núlli og líka 2014 og 2015. Núna tæplega þremur árum síðar 2016 eru vonir um að spóla í sama farinu, þ.e. að vonast er til þess að ríkissjóður verði rekinn á núlli fjórða árið í röð. Ég vil spyrja hv. þingmann: Finnst þingmanninum það vera ásættanlegur árangur með 700 milljarða kr. tekjur, yfir 100 milljarða kr. meira til ráðstöfunar en síðasta ríkisstjórn hafði þegar hún rétti skútuna við, að skila ríkissjóði (Forseti hringir.) kannski á núlli á næsta ári og þurfa til þess að treysta á arðgreiðslur úr Landsbankanum?