145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi að minnsta kosti ganga svipugöng þar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson væri með svipuna vegna þess að það yrðu létt högg og auðvelt að ganga í gegnum þau svipuhögg, yrði auðvelt að ganga í gegnum þau svipugöng. (ÖS: … aldrei nokkurn mann.) Þess þá heldur. Þess þá heldur, hv. þingmaður.

Það er alveg rétt, ég er sannfærður um að við getum gert miklu betur þegar kemur að stofnunum ríkisins. Ég held að við séum að auka útgjöldin of mikið. Ég er sannfærður um það, en það breytir ekki því og það veit gamall, reyndur refur í stjórnmálum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og margreyndur ráðherra, að auðvitað horfa menn þegar til kastanna kemur á stóru myndina. Stóra myndin er sú að hér er að nást stórkostlegur árangur í ríkisfjármálum, en auðvitað er ýmislegt sem ég hef við það að athuga.

Ég fullyrði það að þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson greiddi atkvæði með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafi hann ekki verið sammála hverju einasta atriði í því frumvarpi, en þrátt fyrir það greiddi hann því atkvæði. Eða er það rangt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að þú hafir ekki verið sammála öllu því eða þeim útgjöldum og öllum þeim aðgerðum sem voru í fjárlögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar?