145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:31]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því, áður en ég fer í fjárlögin sjálf eða breytingarnar, að nefna nokkrar staðreyndir í málum málanna, um almannatryggingar og aldraða og öryrkja.

Ég vil byrja á því að rifja upp hvað gert hefur verið á kjörtímabilinu. Við settum í forgang að draga úr skerðingum sem bótaþegar sættu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Strax sumarið 2013 var sú regla afnumin að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var hækkað. Víxlverkunarsamkomulag vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt. Skerðingarhlutfall tekjutryggingar var lækkað í 38,35% þann 1. janúar 2014. Skerðingar síðustu ríkisstjórnar hafa því verið afnumdar að fullu eins og lofað var. Þetta þýðir að bætur eru 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en annars væri.

Það sem stendur til að gera á þessu ári og því næsta: Bætur munu hækka um 14,2 milljarða 1. janúar 2016 eða um 9,7%. Inni í þeirri tölu eru 3,9 milljarðar sem er afturvirk hækkun vegna launaþróunar á árinu. Það bætist ofan á 4,3 milljarða sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2014 en ekki aðrir. Samtals er hækkun vegna launaþróunar á árinu 2015 því 8,2 milljarðar. Hækkun á bótum aldraðra og öryrkja frá janúar 2015 til janúar 2016 eru því samtals 18,5 milljarðar.

Samanlagt skila aðgerðir á kjörtímabilinu því að bætur á næsta ári verða 26,8 milljörðum hærri en þær hefðu annars verið. Það eru 26,8 milljarðar sem fara beint til aldraðra og öryrkja, samtals 17,1% hækkun. Staðreyndin er sú að 1. janúar síðastliðinn hækkuðu aldraðir og öryrkjar um 3%. Það voru 4,3 milljarðar. Þar voru þeir á undan öðrum. Nú 1. janúar 2016 hækka þeir um 9,7%, það eru 3,9 milljarðar. Þar eru þeir á eftir öðrum. 1. janúar 2017, ef við gefum okkur að það verði 8% hækkun þar, þá eru þeir þar á undan.

Hækkanir á almenna markaðnum koma til framkvæmda í maí/júní. Hækkanir á opinbera markaðnum koma til framkvæmda í apríl/maí, miðað við launavísitölu. Svo skulum við spyrja okkur: Hversu mikið hækka bætur almannatrygginga 1. janúar 2016? Bætur almannatrygginga munu hækka um 9,7% eins og kom fram hér áðan, samkvæmt tillögu fjárlaganefndar við 2. umr. Áður hafði verið lagt til að þær mundu hækka um 9,4%. Það þýðir að bætur einhleypings verða 246.902 kr. með heimilisuppbót á mánuði en eru nú 225.070 kr. á mánuði. Bætur einstaklings sem býr með öðrum verða 212.776 kr. á mánuði en eru nú 193.962 kr. á mánuði.

Hækkunin tekur mið af endurmetinni þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í nóvember um þróun launavísitölu að frádregnu launaskriði. Það er hækkun á meðaltöxtum, bæði á yfirstandandi ári og því næsta. Í því felst að meðallaunahækkun ársins 2015, umfram 3% hækkun bóta almannatrygginga í byrjun þessa árs, er innifalin í hækkuninni í fjárlögum ársins 2016. Sé 3% hækkunin tekin með þá nemur uppsöfnuð hækkun á þessum tveimur árum 13%. Sé einnig litið til 3,6% hækkunar á árinu 2014 nemur uppsöfnuð hækkun 17,1%. Uppsöfnuð hækkun verðlags á sama tíma er 7,1%.

Munu bætur fylgja lágmarkslaunum? Lágmarkslaun hækkuðu 1. maí 2015 og eru 245 þús. kr. á mánuði til 1. maí 2016. Bætur almannatrygginga fyrir einhleypa verða því ívið hærri en lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði með hækkuninni 1. janúar 2016. (Gripið fram í.)

Af hverju hækka bæturnar um 9,7% um áramótin? Hvað liggur þar að baki? Bætur almannatrygginga, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, hækka á grundvelli 69. gr. laga um almannatryggingar sem er svohljóðandi:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Hvað segir þetta okkur? Að með þessum 9,7% þá er búið að taka inn í þá hækkun sem aðrir fengu á þessu ári. Þannig að allt tal um að það sé ekki verið að bæta öldruðum og öryrkjum það stenst ekki skoðun. Það er engin brella. Tölurnar tala sínu máli.

En ef við víkjum að frumvarpinu og breytingartillögunum þá er ekki hægt annað en að fagna því að enn og aftur erum við með hallalaus fjárlög. Styrking krónunnar — þessi fræga króna sem sumir vilja endilega henda út í hafsauga — gefur okkur rúman milljarð; minni verðbólga einn og hálfur milljarður. Það verður að taka það með í reikninginn að 70 milljarðar í vaxtagreiðslu hljóta að spila stórt inn í þessa jöfnu, hvort við erum að skila miklum afgangi.

Við getum alveg teiknað fallegri tölur ef við viljum. Við getum áætlað einhvern arð af bönkunum. Við getum teiknað hann eftir behag og haft hann eitthvað hærri. En í raun græðum við ekkert á því. Það kemur bara í ljós. Við erum ekki að tapa neinum tekjum þó að við áætlum arðinn varlega. Hann kemur eftir sem áður. Við getum teiknað, eins og minni hlutinn gerir í frumvarpi sínu, bætt skatteftirlit upp á 4 milljarða. Við getum verið með einhverjar barbabrellur. Við getum alveg notað það með því að teikna eitthvað fallegri tölur. En við skulum vera raunsæ. Verum frekar varkár í áætlunum um tekjur og látum svo koma í ljós hve arðurinn verður mikill eða bætt skatteftirlit. Það er búið að setja dálítið í það að bæta skatteftirlitið þannig að við skulum bara vona að það skili sér.

Ef við lítum svo á kostnaðarhliðina. Áætlað er í framkvæmdir á alþingisreit — margir eru að býsnast yfir því hvað eigi nú að fara að byggja yfir þessa stofnun. En það eru svolítið sláandi tölur ef við förum að spá í það. Þetta er svolítið stór vinnustaður. Hérna eru yfir 100 manns í vinnu fyrir utan alþingismenn. Ég held að hér séu rúmlega 120 starfsmenn þannig að þetta er ansi stórt fyrirtæki. Það kostar upp undir 3 milljarða að reka þetta fyrirtæki. Það er svolítið há tala og við erum að borga 12,5 milljónir í leigu fyrir húsnæðið hér í kringum okkur á mánuði. Tæplega 150 milljónir á ári fara í húsaleigu. Mér var kennt að ef mögulegt væri, ef svigrúm væri, þá ættu menn frekar að reyna að eignast sitt eigið húsnæði en að vera í leiguhúsnæði. Ég held að það hljóti að fara að koma það ár í þessu góðæri sem við getum leyft okkur að byggja yfir þessa stofnun svo að við séum ekki að borga hundruð milljóna í leigu á ári.

Ef við rennum aðeins yfir nefndarálitið. Fjárlaganefnd er búin að taka á móti 42 sveitarfélögum. Fjárlaganefnd er búin að hlusta á 42 sveitarfélög í haust og fá umsagnir frá þeim og taka á móti fleirum, Ríkisendurskoðun, Hagstofunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fulltrúum frá landssamtökunum o.fl. Ég spyr: Til hvers er fjárlaganefnd ef hún á ekki að taka tillit til þessara aðila sem eru að leggja hér inn umsagnir og skýra frá þeirra stöðu?

Ég vil meina að þetta frumvarp og þessar breytingartillögur séu mjög hagstæðar fyrir dreifbýlið. Það er sannkölluð byggðastefna í frumvarpinu ef breytingarnar ná fram að ganga og mikið er lagt í uppbyggingu innviða. Það verður að segjast að eftir hrun og eftir mikinn niðurskurð sem fyrri ríkisstjórn fór í — hún stóð sig vel í því, ekki er hægt að segja annað, hún var ekkert alslæm — þá segir það sig sjálft að nú, þegar við förum að rísa upp úr öldudalnum, er komin mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum. Við skulum því ekki hneykslast mikið á því þótt afgangurinn sé ekki mjög há tala svona í fyrstu.

Á bls. 2 í nefndarálitinu segir:

„Hvað varðar viðbótarheimildir í 6. gr. leggur meiri hlutinn til almenna heimild fyrir Jarðasjóð til að selja þær jarðir sem ekki eru nýttar til ábúðar í því skyni að koma þeim í ábúð eða nýta þær á annan hátt. Mikilvægi heimildarinnar tengist t.d. samstarfsverkefni Byggðastofnunar og Skaftárhrepps um brothætta byggð í Skaftárhreppi en þar og í fleiri sveitarfélögum hefur verið bent á þörf á úrbótum í innviðum. Sérstaklega þarf að endurbæta dreifikerfi raforku og fjarskipti. Þá hefur ekki síður verið sjónarmið heimamanna að skýra stefnu ríkisins um notkun á jörðum í eigu hins opinbera skorti. Fram hefur komið að nokkurt los er á eftirfylgni með framtíðarfyrirkomulagi á búsetu á jörðum sem eru að falla úr ábúð og notkun þeirra. Slík óvissa veikir framtíð byggðar í Skaftárhreppi, en allmargar jarðir þar eru í eigu hins opinbera og þegar búseta endurnýjast ekki veikist byggðin. Meiri hlutinn leggur til að reynt verði að selja jarðir og ráðstafa andvirðinu að hluta til eða öllu til endurnýjunar á dreifikerfi raforku og lagningu ljósleiðara. Leitast verði við að selja jarðir til ábúðar eða sameiningar við aðrar bújarðir eftir hefðbundnu söluferli eigna hins opinbera. Þar sem söluferli jarða er langt og óvíst um framgang verður ekki ráðist í framkvæmdir fyrr en fjárhæð sölu og umfang liggur fyrir.“

Það verður að segjast að ef farið er í svona verkefni sem er brýnt verkefni þarna í Skaftárhreppi — þetta er bara tímaspursmál, það er kannski ekki spurning hvort heldur hvenær byggð leggst algjörlega í eyði á svona stöðum. Með svona verkefni þá verður maður að álíta að auknar líkur verði á að þessar jarðir seljist ef farið er í uppbyggingu á innviðum á þessu svæði. Þetta er eitt gott dæmi um andann í þessu frumvarpi þar sem er verið að hlúa að hinum dreifðu byggðum.

Eins og kom fram í þessu áliti um Skaftárhrepp þá eru fjarskiptamálin mikið atriði fyrir byggðir landsins. Mörg sveitarfélög sem komu á fund nefndarinnar fjölluðu um þörf á úrbótum í fjarskiptum. Meiri hlutinn leggur til að til viðbótar tillögu í frumvarpinu fái Fjarskiptasjóður 200 millj. kr. til uppbyggingar ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða fjarskipta. Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2015 veitti Alþingi 300 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til sjóðsins og gerir tillaga þessi því ráð fyrir að hluti þess framlags verði framlengdur. Framlagið fór til hringtengiverkefna á Vestfjörðum og Snæfellsnesi og tengingu ótengdra byggðakjarna samkvæmt gildandi fjarskiptaáætlun. Tillagan í frumvarpinu núna byggist á vinnu starfshóps innanríkisráðherra um úrbætur í fjarskiptamálum, Ísland ljóstengt, og miðast við að mögulegt verði að ljúka þeim uppbyggingaráformum sem hófust árið 2015.

Ég tók þátt í þessu verkefni ásamt hv. þm. Haraldi Benediktssyni og við erum búnir að vera að vinna í þessu núna í hartnær tvö ár. Það verður því að segjast eins og er að við getum verið sáttir, alla vega er ég mjög sáttur við það að þetta verkefni fái núna rúman hálfan milljarð þannig að landsmenn geti farið að nálgast sömu aðstæður og hérna á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Staða fjarskipta er á margan hátt góð hér á landi og virk samkeppni tryggir flestum markaðssvæðum valkosti um stöðugt afkastameiri og öruggari þráðbundnar nettengingar. Sú uppbygging nær þó ekki til um 3.300 lögheimila og atvinnuhúsnæðis í dreifðari byggðum landsins. Uppbygging ljósleiðarakerfa í dreifbýli mun að takmörkuðu leyti eiga sér stað á markaðslegum forsendum. Því þarf að leggja slíku verkefni til fjármuni. Fyrir liggur greining á umfangi og kostnaði markmiðs um aðgengi að að minnsta kosti 100 Mb/s nettengingum sem standi öllum til boða óháð búsetu. Takist það er miklum áfanga náð. Unnið er að nánari útfærslu á framkvæmd og fjármögnun tillagna starfshóps innanríkisráðherra sem innlegg í endurskoðaða fjarskiptaáætlun áranna 2016–2026. Samleið með öðrum veituframkvæmdum skilar verulegum ávinningi og dæmi eru um að slíkt hafi leitt til þess að kostnaðurinn við tiltekna framkvæmd í lagningu ljósleiðara hafi ekki orðið nema um 30% af upphaflegri áætlun. Leggja verður áherslu á að styðja við verkefni sem nýta þennan möguleika sem best.

Áætlaður heildarkostnaður við að tengja 3.300 lögheimili með ljósleiðara og ná þar með 99,9% útbreiðslu á landsvísu er talinn nema um 5.200 millj. kr. Sá kostnaður félli þó ekki allur á ríkissjóð, heldur yrði samstarfsverkefni markaðsaðila og fleiri.

Það verður að segjast eins og er að þetta verkefni er nánast komið á „full swing“, eins og við segjum. Sveitarfélög hafa tekið við sér. Fjarskiptafélög hafa tekið við sér. Þetta horfir því allt til betri vegar. Þessi hálfi milljarður, sem kemur núna inn í þetta verkefni, mun nýtast vel.

Styrkveitingar og félagasamtök. Það hefur verið svolítið deilt á það að verið sé að hygla einhverjum vinum og vandamönnum. Meiri hlutinn telur brýnt að ríkisstjórnin skipi þingmannanefnd í byrjun árs 2016 sem fái það hlutverk að skoða ýmiss konar félagasamtök og fjárveitingar til þeirra, samlegð og rekstrarhagkvæmni. Gott starf er unnið í samfélaginu af félagasamtökum í hinum ýmsu málaflokkum sem spara ríkinu umtalsverða fjármuni. Munar þar sérstaklega um aðila sem eru í hinum svokallaða þriðja geira á sviði velferðarmála. Vakin er athygli á frumvarpi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur kynnt sem nær til heildarlöggjafar um starfsemi frjálsra félagasamtaka og væntir meiri hlutinn þess að með lögfestingu þess náist fram mikilvægar framfarir á þessu sviði.

Ef við flettum áfram: Minjastofnun fær aukningu og má ég til með að benda þar á áhersluatriði sem nefndin tíundar hvað varðar Minjastofnun sem hefur verið vanrækt undanfarin ár. Það er vegna strandminjahættu. Er Minjastofnun falið að útfæra forgangsröðun þess verkefnis. Það er ótrúlega víða hér allt í kringum landið þar sem útvegsstaðir og gömul mannvirki eru hreinlega að skolast út í sjó og eyðast og ekki er einu sinni verið að skrá þessar minjar. Þetta er áhersluatriði sem við sendum þangað inn.

Hér er af mörgu góðu að taka, hér er Orkustofnun. Lagt er til 10 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til að hefja vinnu að tæknilegum hluta greinargerðar um afmörkun landgrunns við austari hluta Reykjaneshryggjar. Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eiga strandríki sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum sem eru jafnframt ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þar á meðal Ísland, eiga hins vegar sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Hafinn er undirbúningur að því að afmarka austari hluta Reykjaneshryggjar en sá hluti hryggjarins var ekki í upphaflegri greinargerð Íslands frá árinu 2009. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafa séð um vísindavinnuna og tæknilegan hluta greinargerðarinnar. Áætlað er að heildarkostnaður við verkefnið verði um 35 millj. kr.

Hér eru ýmis orkumál. Styrkir til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla. Lögð er til tímabundin 67 millj. kr. hækkun fjárheimildar í þrjú ár í verkefnið Rafbílar – átak í innviðum sem er hluti af sóknaráætlun í loftslagsmálum. Sóknaráætlunin er til þriggja ára og er sett fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París þar sem reynt verður að ná hnattrænu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2030. Þetta er eitt af mörgum verkefnum sem tilheyra því dæmi.

Vegagerðin — gerð er tillaga um 75 millj. kr. hækkun framlags til að styrkja almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Samkomulag sem gert var á sínum tíma um nýtt fyrirkomulag sem fól í sér að landshlutasamtök tækju að sér rekstur almenningssamgangna hefur leitt til þess að farþegum á landsbyggðinni hefur fjölgað um meira en 50%. Mikil ánægja er með þjónustuna meðal íbúa en skerðing framlaga vegna niðurfellingar á endurgreiðslu olíugjalds hefur valdið fjórðungshækkun á rekstrarkostnaði. Framlaginu er ætlað að vega á móti skerðingunni þannig að forsendur fyrir rekstrinum standist.

Einnig er gerð tillaga um 100 millj. kr. hækkun framlags til að styrkja almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Framlög til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu hafa verið skert um 450 millj. kr. að nafnvirði síðan samkomulag um eflingu almenningssamgangna var gert og er framlaginu ætlað að vega upp á móti þeirri skerðingu. Þetta hlýtur að vera hagstætt og öllum til góða.

Hjá Vegagerðinni er líka tillaga um 40 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja varnargarða við Vík í Mýrdal. Því miður kemur þetta aðeins of seint. Eftir þetta óveður sem kom núna þá fór þessi garður mjög illa og erum við kannski ári of sein að koma með þetta. Við hefðum betur gert þetta í fyrra. En þessi sandfangari sem menn kalla þarna í Vík gerir svo sannarlega það sem hann á að gera, þ.e. heftir það að sjórinn gangi á landið, eyði landi. Þessi garður hefur verið að safna sandi og auka það frekar en hitt. Ég bind vonir við það að á næsta ári verði svo bætt um betur og veitt í annan garð sem búið er að teikna þarna á svipuðum slóðum.

Eins og ég sagði er mikið lagt upp úr því að byggja upp innviði og hér koma hafnarframkvæmdir. Eins og allflestir ættu að gera sér grein fyrir þá eru fiskihafnirnar fyrsti hlekkurinn í nýtingu sjávarauðlinda okkar. Ef við sinnum ekki viðhaldi á fiskihöfnunum þá veit ég ekki hvar við ætlum að landa okkar afla. Það verður að segjast eins og er að þær tekjur hjá þeim höfnum sem aðeins eru löndunarhafnir — þar sem eru þessar hefðbundnu vertíðarhafnir, þar sem þessir minni og meðalstóru bátar landa og þar sem ekki er útflutningur og ekki tekjur af útflutningi — standa ekki undir eðlilegu viðhaldi. Þess vegna er þessi Hafnabótasjóður sem hefur verið vanræktur í allt of mörg ár.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 400 millj. kr. tímabundið framlag í Hafnabótasjóð til endurnýjunar á bryggjum og dýpkunar í löndunarhöfnum. Á minnisblaði Vegagerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Frá árinu 2008 hefur endurbyggingu bryggja lítið verið sinnt en þó nokkrar bryggjur eru orðnar hættulegar þar sem þær eru orðnar það lélegar að burðargeta þeirra er langt í frá nægjanleg. Oftast eru þetta stálþilsbryggjur þar sem efnisþykkt þils var í upphafi um 10 mm en vegna tæringar er þykkt þils komin niður í um 2–4 mm meðalþykkt við stórstraumsfjöruborð. Það þýðir að þilin eru mjög götótt á köflum. Þetta gerir það að verkum að ef fullt álag kemur á þær eða hreyfing kemst á jarðveginn, t.d. vegna jarðskjálfta, þá eru verulegar líkur á að þær gefi sig. Sumar af þessum bryggjum eru enn í fullri notkun á meðan aðrar eru í takmarkaðri notkun og er þeim því skipt niður í tvo flokka eftir því hversu mikilvægt er að endurnýja þær miðað við áhættu. Í töflu 1 eru listar yfir þær bryggjur sem taldar eru hættulegar og eru í notkun.“

Og hér er þessi listi, með leyfi forseta. Það er Rifshöfn, þar er 180 m stálþil sem þarf að endurnýja. Á Skagaströnd er löndunarbryggja síðan 1954, 120 m löng. Siglufjörður, Bæjarbryggja síðan 1958, 180 m; Akureyri, Torfunesbryggja 190 m löng. Þorlákshöfn, Svartaskersbryggja 250 m löng. Grindavík, Miðgarður 130 m. Sandgerði, Suðurbryggja 145 m.

Framkvæmdatími er í öllum tilfellum tvö til þrjú ár og efniskaup taka um sex mánuði og eru um 25–30% af kostnaði. Stálþilsrekstur tekur 3–8 mánuði og þekja um 3–5 mánuði; þekju er unnt að framkvæma að loknum stálþilsrekstri. Nokkrar fleiri bryggjur eru komnar á tíma eða eru við það að komast á tíma en talið er upp í töflu 1. Og sama gildir um grjótgarða en mikill kraftur var í uppbyggingu grjótgarða á 8. og 9. áratugnum. Sumir þeirra hafa þegar verið endurnýjaðir að hluta. Ekki er þó talin stafa bráð hætta á að þeir fari eða skemmist alvarlega á þessu augnabliki.

Í töflu 2 eru bryggjur sem eru ekki metnar jafn áhættusamar og þær sem taldar eru upp í töflu 1. Þar getum við lesið: Bíldudalur, Bolungarvík, Hólmavík, Sauðárkrókur, Akureyri o.fl.

Níu flýtimeðferðir: Meðfylgjandi er listi yfir bryggjur sem unnt er að fara þegar í stað í útboð á að mati Vegagerðarinnar auk annarra hafnarframkvæmda sem voru á samgönguáætlun eða vitað er um að eru fjárhagslega mikilvægar fyrir hafnirnar. Hér er tafla yfir þessar flýtiframkvæmdir. Það eru Rifshöfn, Siglufjörður, Akureyri, Grindavík, Grundarfjörður, Norðfjörður, Ísafjörður, Vopnafjörður, Seyðisfjörður og svo viðhaldsdýpkanir í Hrísey, Siglufirði og víðar.

Áætlað er að á komandi árum þurfi að endurbyggja bryggjur og garða fyrir um 1,5 milljarða kr. árlega. Þar af er ríkisframlag einn milljarður. Að mati Vegagerðarinnar má loka sumum af þessum bryggjum en aðrar þarf að endurbyggja með meira dýpi en nú er og við það hækkar framkvæmdakostnaður. Meðfylgjandi listi er ekki tæmandi, t.d. er Helguvík ekki talin upp á honum.

Lagt er til að Vegagerðin noti þetta viðbótarframlag til að flýta framkvæmdum í viðkomandi höfnum þannig að hægt verði að sameina efniskaup og hefja framkvæmdir árið 2016 þar sem mögulegt er. Lögð er áhersla á að leitað verði eftir sameiginlegu tilboði í stálþil vegna þessara framkvæmda. Lagt er til að viðbótarfjárveiting skiptist á eftirfarandi hátt:

Endurbygging Norðurkants í Rifshöfn í Snæfellsbæ: 37,2 milljónir til viðbótar við það sem var áætlað hjá Vegagerðinni eða samtals rúmar 100 milljónir. Stuðpúði á Mávagarði í Ísafjarðarbæ: 22 milljónir. Skarðsstöð í Dalabyggð: 15 milljónir. Endurbygging og stækkun Svartaskersbryggju í Þorlákshöfn: 41 milljón til viðbótar við það sem var áætlað frá Vegagerðinni af þessari upphaflegu tölu 212 milljónum. Endurbygging Miðgarðs í Grindavík: 47 milljónir og dýpkun við Miðgarð: 56 milljónir. Endurnýjun á Suðurbryggju í Sandgerði: 44,3 milljónir. Númer 7 er dýpkun við ferjubryggju á Brjánslæk: 14,5 milljónir. Gerð skjólgarðs og flotbryggju við smábátahöfnina á Norðurfirði: 8,4 milljónir. Þar er einnig um viðbótarframlag að ræða. Númer 9 er gerð skjólgarðs og flotbryggju og endurnýjun stálþils á Hólmavík: 7,5 milljónir. Númer 10: Endurnýjun Hafnarbryggju á Siglufirði: 80 milljónir. Hafnasamlag Norðurlands, endurnýjun hafnsögubáts: 24 milljónir. Frumrannsóknir utan við Hornafjörð: 3 milljónir. Þar er um viðbótarframlag að ræða.

Eins og segir í minnisblaði frá Vegagerðinni þá er áætluð fjárþörf næstu árin til að koma þessum stálþiljum og þessum höfnum úr bráðri hættu — við erum að bæta við 400 milljónum til viðbótar við þessar 212 milljónir sem er þá 612 milljónir. Það segir að við þurfum að gera enn betur. Við þurfum að bæta um betur til að koma þessum höfnum í skikkanlegt horf. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort Vegagerðin geti þá farið í samningaviðræður við þessar hafnir. Það segir sig sjálft að þessar tölur passa kannski ekki alveg í ákveðna verkþætti. Ég velti því fyrir mér hvort Vegagerðin geti farið í samningaviðræður við viðkomandi sveitarfélög eða viðkomandi hafnir um hvernig þeir ætli að framkvæma þetta viðhald, eða ljúka því á þessum þremur árum, eins og við leggjum til í þessu áliti, þannig að litið verði á þessi verk sem eina heild og hafnirnar leggi sinn skerf af kökunni og Hafnabótasjóður sinn hluta, hvort sem skiptingin er sú sama á þessu ári eða ekki. Ég veit ekki alveg hvernig það samrýmist lögum og reglum en alla vega væri mjög æskilegt að hægt væri að ljúka þessu á þremur árum. Þó svo að hafnirnar mundu borga stærri hluta af þessum verkum á fyrri hlutanum og svo mundi það jafnast út á þessum þremur árum. Þarna er alla vega verið að sýna lit með því að bæta í þennan lið og virðingu við þessi sjávarpláss sem eiga allt sitt undir þessum höfnum.

Inniviðirnir eru fleiri, það má nefna flugvelli. Lagðar eru til 400 milljónir í tímabundið framlag til að koma til móts við uppsafnaða þörf fyrir uppbyggingu á flugvöllum á landsbyggðinni og rekstur innanlandsflugs. Við getum því lengi talið hér. Sjúkrahúsin — lögð er til 840 millj. kr. fjárheimild næstu þrjú árin vegna átaks til að stytta biðlista eftir augasteinsaðgerðum og gerviliðaaðgerðum á hné, gerviliðaaðgerðum á mjöðm og kransæðaþræðingum.

Eins og komið hefur fram hjá öðrum nefndarmönnum er gerð tillaga um 280 millj. kr. tímabundna fjárheimild til að mæta kostnaði við rannsóknarverkefni í lyfjameðferð gegn lifrarbólgu C. Átakið mun vara í þrjú ár og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja til að veittar verði til þess 280 millj. kr. vegna áranna 2015 og 2016 og 150 millj. kr. árið 2017. Þetta er allt byggt á framtaki duglegra og hugulsamra lækna. Hópur lækna á Landspítalanum hefur haft forystu um innleiðingu átaksverkefnis og hefur hann í umboði heilbrigðisráðherra unnið að undirbúningi samnings við fyrirtækið Gilead Sciences. Samhliða þessari vinnu hefur breiður hópur fagfólks Landspítala ásamt ráðuneytinu, sóttvarnalækni, SÁÁ og fleirum unnið að fjölþættum undirbúningi átaksins. Þetta er glæsilegt átak.

Ekki vinnst tími til að lesa allt það góða sem hér er enda líður tíminn fljótt.

Ég má til með að nefna eitt. Lögð er til tímabundin 10 millj. kr. hækkun fjárheimildar í þrjú ár til verkefnisins Vegvísir íslensks sjávarútvegs um samdrátt í losun sem er hluti af sóknaráætlun í loftslagsmálum. Við vitum að sjávarútvegurinn á talsverðan þátt í því hvað við losum mikið kolefni en sem betur fer hefur gengið vel í sjávarútveginum og hann ekki verið kýldur niður með háum veiðigjöldum þannig að hann hefur getað hafið endurnýjun á fiskiskipum sem leiðir til þess að með nýrri vélum og nýrri tækni eyða vélarnar minna þannig að losun kolefnis er mun minni í nýjustu skipunum. Þetta getur munað miklu í þeim togurum sem eyða mestri olíu. Menn eru að tala um allt að 30% minni olíueyðslu og þá hagstæðari skip.