145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gæti spurt um margt og meðal annars hvort það eigi að skipta máli hverjir eru sáttir og hverjir eru ekki sáttir. Eiga þeir sem eru ekki sáttir að leita til þingmanna sem hafa aðgang að þingmönnum í fjárlaganefnd? Er það verklagið?

Ég kom ekkert að þeim breytingartillögum sem voru lagðar fram og það vekur mér furðu að á blaðsíðu 22 í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að 0,2 millj. kr. eru veittar til Þórbergsseturs. Allt í lagi með það.

Síðan er annar liður, 02-999, þar sem gerð er tillaga um 59 millj. kr. tímabundið framlag til ýmissa styrkveitinga.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, þar sem þetta er 59 millj. kr. tala: Hvað er á bak við hana? Það er sérstakt að fjárveitingar skuli vera brotnar niður í 0,2 millj. kr. en svo séu 59 milljónir ósundurliðaðar.

Ég spyr þingmanninn hvort hann hafi séð þá sundurliðun sem er að baki þeim lið og hvort hann telur eðlilegt að lagt (Forseti hringir.) sé fram frumvarp á þennan hátt þar sem er svona stór liður og engin sundurliðun, alla vega ekki sem ég hef séð. Ég spyr hvort hann geti útvegað mér þessa sundurliðun.