145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst ekki um að skoða nein mál. Það er sundurliðað niður í 0,2 millj. kr. upphæð en svo eru 59 milljónir algjörlega ósundurliðaðar og við vitum ekkert hvert þær eiga að fara. Mér heyrist að hv. þingmaður viti það ekki heldur.

Hér kom fram áðan að verið er að deila fé úti um allar koppagrundir, eins og sagt er. Ég spyr þingmanninn hvers vegna ákveðin verkefni eru valin umfram önnur. Telur hann ekki að fella ætti niður virðisaukaskatt af fólksflutningum, af því að hann vísaði í fundi sveitarfélaga sem hafa ítrekað lagt fram ósk um það?

Það eru hér 75 millj. kr. til styrktar almenningssamgöngum á landsbyggðinni og við vitum að það dugar ekki til þess að leiðrétta allan halla þar.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann varðandi hafnarframkvæmdir. Ríkisstjórnin leggur fram 200 milljónir í hafnarframkvæmdir. Meiri hlutinn leggur til 400 milljónir til viðbótar. Það er engin áætlun. Það er engin samgönguáætlun í gildi sem (Forseti hringir.) styður þetta eða hafnaáætlun sem styður þetta. Hver ákveður að þetta sé mesta forgangsverkefnið? Er meiri hluti fjárlaganefndar færari til þess en innanríkisráðherra?