145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sýnir í hnotskurn forgangsröðun þessarar hægri ríkisstjórnar í þágu þeirra sem meira hafa og þeir skildir eftir sem minna hafa. Því miður er það veruleikinn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í arð bankanna. Áætlanir undanfarin tvö ár hafa alltaf verið allt of lágar. Á síðasta ári var áætlun um arð úr bönkum um 6 milljarðar og fór í 26 milljarða. Nú er áætlun fyrir næsta ár um 7 milljarðar. Hvers vegna er verið að vanáætla svona í þennan lið, sem ætti auðvitað að renna til uppbyggingar og góðra málefna eins og velferðarkerfisins og annarra þátta?

Varðandi flugvellina, mig langar að spyrja hv. þingmann út í það. Nú komu fram í breytingartillögu 400 milljónir til flugvalla, flugleiðsöguþjónustu og viðhalds flugvalla. En í fjárlagafrumvarpinu er liðurinn lækkaður um 516 milljónir að raungildi (Forseti hringir.) frá fjárlögum yfirstandandi árs. Er ekki bara verið að bæta upp það sem búið var að skera niður í fjárlögum? Mér sýnist það. Og ekki það, því að 100 milljónir vantar upp á. Er þetta eitthvað til að hampa?