145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að gefa gott svar þegar svona lítill tími er til stefnu. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með það að fagna samningnum vegna lifrarbólgu C. Ég held að ég hafi varla heyrt nokkurn einasta stjórnarandstöðuþingmann lýsa yfir ánægju með hann. Ég tek undir með þingmanninum og hef bent á að fjölmiðlar sýna þessum samningi mjög lítinn áhuga.

Stóra málið varðandi lyfin eru þau að breyta lögunum um opinber innkaup þannig að við getum verið í samfloti með hinum Norðurlandaþjóðunum að kaupa lyf, svo það sé sagt hér. En ég hef áhuga á að vita eitt og vona að þingmaðurinn geti svarað því. Skorið var niður um 20% á Landspítalanum á síðasta kjörtímabili. Það var gerður ákveðinn samningur við Landspítalann um að ef hann yrði innan ákveðinna fjárheimilda í þrjú ár yrði halinn frá fyrsta ári skorinn af og það var gert. Hverjar voru áherslur í tíð fyrri ríkisstjórnar til niðurskurðar á Landspítalanum sem þessi ríkisstjórn er núna að bæta?