145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég hef áhyggjur af með lögin um opinber fjármál er að áherslan er þar fyrst og fremst á peningahliðina. Það eru nefnilega til tvenns konar lög sem Alþingi og fjárveitingavaldið þarf að horfa til. Annað lýtur að peningunum sem slíkum og hitt að þeim skyldum sem við höfum sett á herðar okkar með margvíslegum lögum um rétt sjúklinga, rétt fólks til heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Það er höfuðgagnrýni mín á þetta.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. þingmaður vekur máls á, hvort lögin um opinber fjármál komi í veg fyrir ferli af því tagi sem ég rakti varðandi Hvanneyri og Landbúnaðarháskólann — nei, ég ætla ekkert að fullyrða um það og eflaust eigum við eftir að finna leiðir í framtíðinni til að þróa þau mál áfram. Ég held hins vegar að sá rammi sem við erum að setja okkur með (Forseti hringir.) lögum um opinber fjármál og eru sniðin í smiðju Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé ekki heppilegur heildarrammi utan um þá þróunarvinnu.