145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég tel að gerist í þessum útboðum á rekstri heilbrigðisstofnana, eins og heilsugæslustöðva, er að samkeppnin er einvörðungu á fyrsta stigi. Þegar reksturinn er upphaflega boðinn út verður einhver samkeppni um hver er talinn vera heppilegasti rekstraraðilinn. Svo líður tíminn. Rekstrarleyfið, spái ég, verður aldrei tekið af því teymi sem þarna verður til. Samkeppnin kemur til með að færast yfir á annað stig. Hún kemur til með að vera samkeppni um sjúklingana. Nú heyrum við það frá heilsugæslunni í Reykjavík að það eigi að fara að stíga það skref að láta heilsugæslustöðvarnar keppa um sjúklingana. Hver tjáir sig um það á forsíðu Fréttablaðsins í dag annar en forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ekki landlæknir heldur forstjóri Samkeppniseftirlitsins (Forseti hringir.) talar um spennandi hvata, ávinningshvata sem sé að myndast í heilbrigðisþjónustunni. Sjá menn ekki hvað er að gerast?