145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:32]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri gaman að halda þessari umræðu áfram. Það er hins vegar annað mál sem mig langar líka til að ræða við hv. þingmann um. Það eru heilbrigðismálin sem hann kom ítarlega inn á.

Nú liggur það fyrir að framlög til Landspítala í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2016 hafa aukist um 30% frá fjárlögum 2013, til sjúkarahúsa um 34,6%, til heilsugæslunnar um 27,2% og til öldrunarstofnana um 25%, þ.e. á þremur árum. Við vitum vel að heilbrigðiskerfið sogar til sín mikla peninga. Við viljum öll hafa gott heilbrigðiskerfi. Við viljum helst hafa það þannig að við þurfum ekkert að greiða sem notendur eða sjúklingar.

Spurningin er hins vegar þessi: Hvað höfum við sem lítil þjóð efni af því að setja stóran hluta af þeirri köku sem við höfum til skiptanna í þetta kerfi? Við vitum að við stöndum frammi fyrir sömu vandamálum og aðrar þjóðir hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Við getum ekki sett endalaust í kerfið. Við hljótum (Forseti hringir.) því að þurfa að taka umræðu um það hvernig við sjáum þetta kerfi eftir 10 ár og 15 ár. Við höfum ekki efni á óbreyttu kerfi eins og (Forseti hringir.) það er í dag. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála þessu.