145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef gaman af þeirri kenningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, félaga okkar, að það verði enginn fullharðnaður þingmaður hér fyrr en hann hefur vakað eina nótt og séð sólina rísa út um þessa glugga. En við erum á erfiðum tíma ársins til þess. Ætli sólarupprás sé fyrr en seint á tíunda tímanum í fyrramálið og væri þá nokkuð að unnið. Að vísu stóð hér einu sinni fundur í efri deild fram undir tíuleytið að morgni og hafði þá staðið í tæpan sólarhring, en mér heyrist að enginn sakni þeirra tíma.

Staðan á Alþingi er sú að það er 9. desember, bráðum 10. Það á eftir að afgreiða fjáraukalög, það á eftir að afgreiða tekjubandorm, það er eftir afgreiðsla á fjárlögunum sjálfum (Gripið fram í.) og væntanlega frumvarpi um opinber fjármál, væntanlega allmörgum áramótatengdum málum. Sá veruleiki mun renna upp fyrir stjórnarmeirihlutanum innan skamms að það er í hans þágu að hafa gott samstarfsandrúmsloft á þinginu ef á að takast að ljúka því með sómasamlegum hætti fyrir jól. Þess vegna eru það bara hollráð til forseta að vera ekki að láta tímann fara í svona lagað. Hann getur með einföldum hætti gefið það út (Forseti hringir.) nær hann hyggst láta staðar numið í kvöld eða nótt og þó að það yrði kannski segjum kl. 1 eða 2 sem okkur þætti fulllangt gengið, ef við vissum það mundi það strax breyta allmiklu, herra forseti.

(Forseti (ÞorS): Enn er drjúg stund til miðnættis og ekki þreytu að sjá á nokkrum manni.)