145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég hyggst í upphafi ræðu minnar hér og svona framan af bíða með að fjalla um nefndarálit meiri hlutans og fjárlagafrumvarpið sem slíkt. Ég spara mér það til síðari tíma, annaðhvort síðar í ræðu minni eða í næstu ræðu, og fjalla frekar um yfirbragð fjárlagagerðarinnar, fjárlagaumræðuna eins og hún hefur endurspeglast út í samfélagið og til okkar sem ekki höfum tekið þátt í umræðunni eða verið á vettvangi fjárlagagerðarinnar innan þingsins.

Að mínu mati er ýmislegt sammerkt með því sem þar hefur mátt heyra og sjá og finna má í mörgum bókmenntum sem teljast nú til heimsbókmennta. Heimsbókmenntirnar eru reyndar fullar af sögum af alls kyns fólki sem segir ævintýralegar sögur af sjálfu sér eða upplifir veröldina á annan veg en flestir aðrir.

Þannig er til dæmis sagan af Don Kíkóta. Hann las yfir sig af riddarasögum, ruglaðist og las þær reyndar sér til óbóta og tapaði glórunni eins og segir í sögunni um hann og lagðist í kjölfarið í ferðalög um allan heim með það að markmiði að koma góðu til leiðar, ávinna sér eilífan orðstír fyrir hetjudáðir og riddaramennsku. Í þann leiðangur fór hann með aðstoðarmanni sínum, Sansjó Pansa, sem annaðist um húsbónda sinn og gætti þess að hann yrði hvorki sér né öðrum að fjörtjóni.

Í huga Don Kíkóta átti veröldin stundum til að breytast í allt annað og meira en aðrir sáu. Þannig urðu vindmyllur að miklum risum og ógnvænlegum, þannig urðu kindahópar að óvinaherjum og bændastúlkur áttu það til að breytast í fagrar prinsessur. Eðlilega gat þetta allt kostað ómæld vandræði og misskilning sem hafði ýmsar afleiðingar í för með sér og alls ekki allar fyrirsjáanlegar.

Þá var nú gott að hafa aðstoðarmann sem hafði það helsta hlutverk í þessari sögu að leiðrétta húsbónda sinn, þ.e. að reyna að útskýra fyrir öðrum hvað hann var að meina og hvað hann var að segja með orðum sínum og gjörðum af því að hann var ekki alveg sjálfráður í því sem hann sagði og gerði.

Það eru einnig til sögur af honum Münchhausen barón. Þær eru ekki síður skemmtilegar og áhugaverðar að mörgu leyti, enda eru þær án nokkurs vafa í hópi frægustu og skemmtilegustu lyga-, ýkju- og montsagna sem skrifaðar hafa verið. Þær eru að vísu eignaðar þýskum barón sem átti að hafa haft gaman af að segja sögur af sjálfum sér, hetjudáðum og afrekum og ótrúlegum háska sem hann lenti oft í á ferðalögum sínum um heiminn.

Til gamans ætla ég að rifja upp eina stutta sögu af Münchhausen barón sem hann sagði af sjálfum sér þegar ljótur úlfur réðst á hann og ætlaði að éta hann. Og með leyfi forseta þá hljóðar hún svo:

„Eitt sinn réðst óttalegur úlfur svo snögglega á mig og kom svo fast að mér að mér var það eitt fyrir að reka hnefann inn í galopinn trantinn á honum. Til þess að vera viss þá herti ég á og ýtti á eftir þar til handleggurinn var allur kominn ofan í hann upp að öxl. En þá hófust vandræðin um það hvernig ég átti að losa mig úr þessu. Mér þótti ég ekkert sérstaklega vel staddur í þessari klípu, að horfast í augu við úlf, og það voru engin ástaraugu sem við renndum hvor til annars. Drægi ég að mér handlegginn væri hann vís með að rjúka á mig enn vitlausari en áður því að augun tindruðu í honum. Það er styst frá því að segja að ég tók með höndinni í rófuna á honum, sneri honum að endilöngu eins og vettlingi og slengdi honum niður úthverfum og lét hann liggja þar eftir.“

Þannig lýsti Münchhausen baráttu sinni við úlfinn og það má segja fleiri skemmtilegar sögur af Münchhausen í þessa veru, en hann leysti flestar þrautir af mikilli yfirvegun og karlmennsku, eins og sagan um ljóta úlfinn ber vitni um.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar eru sömuleiðis margar frásagnir af skemmtilegu fólki sem bera má saman við Münchhausen eða jafnvel Don Kíkóta, í ævintýrum. Þannig er sögð saga af einum manni sem reri svo skart í land, eftir að hafa verið að veiðum, fyrir norðan náttúrlega, með hlaðinn bátinn, að daginn eftir, þegar menn reru til fiskjar, þá sáust enn djúp áratökin eftir hann út allan fjörð. Svo ákveðið og fast tók hann til ára að það stórsá á haffletinum lengi vel á eftir.

Það er sem sagt af nægu að taka þegar kemur að hetju- og ævintýrasögum og lygasögum og svo virðist vera sem fólk sé oft tilbúið til að segja sögur af sjálfu sér og lýsa með sínum orðum eigin afrekum sem oft hafa reyndar litla innistæðu þegar betur er að gáð, enda á sjaldan að vera að eyðileggja góða sögu með sannleikanum.

Nær okkur í tíma eru til ótal sögur af ævintýrum og upplifun íslenskra viðskiptamanna sem færðu þjóðinni reglulega sögur af sjálfum sér og ótrúlegum afrekum á erlendri grundu, oftast nær. Þannig sögðu íslenskir viðskiptamenn sögur af því hvernig þeir sigruðu heiminn með séríslenskum viðskiptamódelum og sterkri blöndu af eigin hyggjuviti og hæfileikum. Þeir sigruðu heiminn og kenndu öðrum þjóðum nýja siði og fóru áður ófærar leiðir til að eiga viðskipti sín á milli. Jafnvel þjóðir sem áttu aldalanga viðskiptasögu að baki voru sagðar hafa verið numdar af íslenskum viðskiptamönnum og þeim kennd lexía.

Íslenskir stjórnmálamenn eru engir eftirbátar og sér í lagi þó talsmenn stjórnarflokkanna, hægri flokkanna sem nú sitja á þingi, og hljóta nú að fara að teljast til helstu sagnamanna þjóðarinnar um hetju- og afrekssögur og jafnvel lygasögur í anda Münchhausen og Don Kíkóta. Þannig segja þeir varla sögur af sjálfum sér nema nánast eitthvað heimssögulegt hafi gerst og allt sem gert er sé meira og minna glíma við óþekkt öfl sem enginn sér og eru jafnvel úr öðrum heimi.

Þannig segir forsætisráðherra gjarnan sögur af sjálfum sér, að hann hafi orðið var við ýmis öfl sem staðið hafi í vegi fyrir því að hann geti náð sínu fram. Eða þá að hann sé að glíma við ígildi vondra vera sem enginn annar sér. Eða þá að honum berist hótanir um að vera étinn af vondum og ljótum úlfum ef hann gefi sig í sinni endalausu baráttu gegn þeim.

Dæmi um þetta er viðtal sem var tekið við forsætisráðherra á Bylgjunni fyrir rúmum mánuði.

Í viðtalinu spyr þáttastjórnandinn: Hér eru öfl sem vilja ekki sleppa verðtryggingunni. Finnur þú fyrir þessum öflum? Og forsætisráðherra svarar: Já, já. Heldur betur. Og fréttamaðurinn spyr aftur: Tengjast þessi öfl Sjálfstæðisflokknum eða bönkunum? Þá segist forsætisráðherra ekki vilja svara eða hengja þetta á ákveðna flokka en þegar á hann var gengið viðurkenndi hann að vissulega væri þarna um að ræða hluta af Sjálfstæðisflokknum.

Í forsíðuviðtali við DV fyrir fáum vikum var forsætisráðherra á svipuðum nótum og þá í tengslum við afnám gjaldeyrishafta og kröfuhafa í bú gömlu bankanna. Þá segir ráðherrann meðal annars:

„Ég veit að ákveðnir aðilar sem vildu hafa áhrif á umræðuna út af haftamálunum fóru skipulega að dreifa ýmsum sögum um mig og þá með það að markmiði að reyna að draga úr trúverðugleika mínum og skaða möguleika mína á því að hafa áhrif á gang mála. Og talandi um fjárkúgun og hótanir þá hef ég meira að segja fengið hótanir úr þeim ranni.“

Þegar ráðherrann er spurður nánar út í málið þá gerist hann frekar dularfullur og talar jafnvel um að honum og fleirum, sem þó er hvergi getið um hverjir eru, hafi beinlínis verið hótað meiðingum. Um hótanirnar segir ráðherrann í viðtali við DV með leyfi forseta:

„[Þær voru] þess eðlis að ríkisstjórnin væri að ganga þannig fram gagnvart þessum aðilum að við myndum fá að gjalda þess fylgdum við þessari stefnu áfram. Menn væru í aðstöðu til að skaða okkur verulega.“

Áfram segir hann:

„Það er mjög hættulegt fyrir stjórnmálin ef það er orðin baráttuleið að leggjast í persónuofsóknir og hóta mönnum og telja það bestu leiðina til að ná sínu fram.“

En það hefur aldrei komið fram hverjir það voru sem hótuðu forsætisráðherranum, hverju honum var hótað eða hverjum öðrum var hótað, hvað þá hvort hann sá ástæðu til að gera eitthvað með þessar hótanir, jafnvel kæra þær til lögreglu því að það er alvarlegt að hóta fólki. Líklegast finnst mér að endirinn á þessum sögum forsætisráðherra hafi verið í anda Münchhausens þar sem hann rak handlegginn upp að öxlum ofan í úlfinn og sneri honum úthverfum og slengdi honum síðan dauðum við hliðina á sér. Ég veit ekkert um það.

Af sagnamönnum úr hópi þingmanna finnst mér þó fara fremstir meðal jafningja forystumenn fjárlaganefndar, hv. formaður nefndarinnar þó skrefinu framar varaformanni, þó að mér finnist oft að tæplega megi á milli sjá. Þannig lýsir varaformaður fjárlaganefndar vinnu við gerð fjárlaga á þann veg að um erfiðisvinnu sé að ræða enda sporni ríkisstofnanir við sparnaði með öllum tiltækum ráðum.

Í viðtali við Morgunblaðið á dögunum sagði varaformaðurinn eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það gengur erfiðlega að spara hjá stofnunum. Kerfið ver sig með öllum ráðum. Það skortir skilning á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og hafa í þessu tilfelli einfalt og skilvirkt eftirlitskerfi. Þetta er útlagður kostnaður skattgreiðenda og það er líka í þessu fólginn mikill óbeinn kostnaður fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu, eins og allir vita ... Fjárlögin eru illskiljanleg og það er iðulega verið að ræða smærri mál í stað þess að ræða stóru málin.“

Varaformaðurinn segir að tregðulögmálið sé hrikalega sterkt. Til að taka á þessum hlutum þurfi að vera samspil milli framkvæmdarvalds og þingmeirihluta. Það virðist vera svo að þótt menn séu í orði kveðnu tilbúnir í breytingar þá vanti upp á að því sé hrint í framkvæmd, segir varaformaður fjárlaganefndar.

Þarna má auðveldlega greina áhrifin frá Don Kíkóta, áhrifin af glímunni við eitthvað sem enginn annar sér. Það er ekki útskýrt sérstaklega hvað kerfið er. Kerfið slæst á móti. Það er erfitt að ráða við kerfið, það ver sig sjálft. Óvinurinn er ekki ljós. Hann er ekki sýnilegur neinum nema þeim sem segir söguna. Ekki er heldur reynt að skilgreina neitt sérstaklega fyrirstöðuna sem varaformaðurinn lýsir eða hvert tregðulögmálið er. En talað er um að menn séu í orði kveðnu tilbúnir og það vanti upp á að hægt sé að hrinda breytingum í framkvæmd.

Hvað er svona erfitt og hverjir eru þessir menn? Þessi mantra hefur verið endurtekin í ræðum hér í dag. Þetta er svo erfitt, þetta er svo snúið vegna þess að einhverjir menn og eitthvert kerfi er að verja sig. Eru þetta embættismenn? Er þetta starfsfólk ráðuneyta? Eru þetta embættismenn í Stjórnarráðinu? Eru þetta ráðherrar? Eru þetta stjórnendur stofnana, sjúkrahúsa, skóla, Vegagerðarinnar jafnvel, háskólans, framhaldsskóla?

Það er reyndar rétt hjá hv. varaformanni fjárlaganefndar að fjárlögin eru því miður ekki nægilega skiljanleg, þ.e. að því marki að það getur verið erfitt að átta sig á stórum málum, eins og hann nefnir, og þingmenn sem og aðrir, þar með sá sem hér talar, sekir um það sömuleiðis að gleyma sér oft í smærri málum og horfa ekki til langs tíma. Við skulum koma að því aðeins betur síðar.

Haustið 2014 fullyrti formaður fjárlaganefndar að miklar upphæðir hefðu verið settar í Landspítalann eða 10 milljarðar kr. og þar með væri búið að, orðrétt, með leyfi forseta, „skila því inn til Landspítalans sem vinstri velferðarstjórnin skar niður“. Þetta var hraustlega mælt, eins og vænta mátti, og hvergi dregið af frekar en í sögunni af áratökunum sem sáust úti á firðinum deginum eftir að róið var í land.

En hvað segja þeir sem málið varðar? Þeir sem eru á vettvangi, eru þeir sammála formanni fjárlaganefndar? Voru þeir sammála formanni fjárlaganefndar um að með þeim 10 milljörðum sem átti að vera búið að setja í Landspítalann hafi verið bætt úr hruninu fyrir spítalann?

Um þetta sagði forstjóri Landspítalans í pistli sínum á heimasíðu Landspítalans, með leyfi forseta:

„Formaður fjárlaganefndar var í útvarpsviðtali í morgun og ræddi meðal annars framlög til Landspítala í umræddu frumvarpi og á fjárlögum þess fyrra. Taldist henni til að um 10 milljarðar hafi verið veittir til spítalans með fjárlögum 2014 og frumvarpi til ársins 2015 og niðurskurður síðustu ára þar með jafnaður. Betra ef satt væri. Til þess að svo væri hefðu ný framlög til spítalans þurft að vera 16 milljarðar. Samanlögð aukning í rekstrargrunn spítalans á nefndu tímabili er hins vegar 3,5 milljarðar auk þess sem nýtt framlag til stofnkostnaðar var um 2,8 milljarðar og hafa því verið veittir samtals 6,3 milljarðar kr. til spítalans þessi tvö ár. Þetta er nokkuð fjarri þeim 10 milljörðum sem formaðurinn nefndi. Hugsanlega er vísað til þeirra launa- og verðlagsbóta sem spítalinn hefur fengið. Það er hins vegar villandi að líta til leiðréttinga vegna launa- og verðlagshækkana sem aukins framlags til starfseminnar enda er slíkt reiknað eins fyrir alla ríkisaðila. Verðlagsbætur eru veittar til allra ríkisstofnana til að standa straum af verðlagsþróun svo sem vegna þeirra kjarasamninga sem ríkisvaldið hefur gert við sína starfsmenn og annarra breytinga sem orðið hafa á verðlagi í landinu almennt.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, bætir því reyndar við í lok pistilsins að mikilvægt sé að stofnunin eigi uppbyggilegt samtal við fjárveitingavaldið um verkefni spítalans og fjármögnun. Orðrétt, með leyfi forseta, lýkur forstjórinn pistlinum með þessum orðum:

„Það samtal verður að byggja á staðreyndum en ekki fullyrðingum sem standast ekki skoðun og færa umræðuna ekkert áfram. Landspítali er alltaf tilbúinn til slíks samtals.“

Yfirlýsingar og fullyrðingar formanns fjárlaganefndar að þessu sinni stóðust því ekki grunnskoðun þegar að var gáð. Þær reyndust vera einhvers konar blanda eða mix af ýkjusögum eða hetjulýsingum án innistæðu þar sem ólíkum hlutum var hrært saman og útkoman gat því aldrei orðið neitt annað en vitleysa.

Nýjasta dæmið um rangar og glórulausar yfirlýsingar formanns fjárlaganefndar má finna í fjölmiðlum í dag. Þar rekur Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir á Landspítalanum, rangfærslur formannsins ofan í hana trekk í trekk. Tómas tekur sem dæmi að formaður fjárlaganefndar hafi talið sér og sínu til tekna að hafa stóraukið tækjakaup á Landspítalanum, t.d. jáeindaskanna og fleira. Hann segir að staðreyndin sé hins vegar sú að íslenska ríkið hafi sloppið ótrúlega ódýrt frá þessum hliðarverkefnum. Einkaaðilar hafi hlaupið undir bagga og bjargað málum með ómetanlegu framlagi. Hann segir:

„Nýjustu fjaðrir Landspítalans eru því á kostnað einkaaðila en ekki hins opinbera — jafnvel þótt Vigdís og Guðlaugur Þór reyni að telja fólki trú um annað.“

Tómas læknir segir það hafa verið starfsfólki Landspítalans gríðarleg vonbrigði þegar meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að spítalinn fengi ekki aukafjárveitingar á fjárlögum til að tryggja grunnþjónustu sjúkrahússins og endurbætur á húsnæði. Fyrir þeirri ákvörðun hafi Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson farið að mati Tómasar Guðbjartssonar, skurðlæknis á Landspítalanum.

Það er því sama hvar borið er niður. Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi forystumanna fjárlaganefndar og það er varla neitt að marka það sem þau segja. Það er nánast eins og þau skynji ekki muninn á réttu og röngu og þau ráða beinlínis ekki við sig við að segja látlausar hetjusögur af sjálfum sér og lýsa eigin afrekum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum frekar en hjá Münchhausen barón kollega þeirra.

Fyrr í þessari umræðu lýsti formaður fjárlaganefndar síðan meintu viðhorfi meiri hluta fjárlaganefndar og ríkisstjórnarflokkanna til heilbrigðismála á þann veg að þau mál væru í algjörum forgangi og til þeirra væri verið að veita fé sem aldrei fyrr. Þannig lýsir formaðurinn þeim málum einnig í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum að heilbrigðismálin væru nú komin á býsna góðan stað „svona miðað við hvað var búið að tæta spítalann niður á síðasta kjörtímabili.“ Hún bætir því svo við að Landspítalinn hafi áður fengið ríflega á fjárlögum en engir peningar séu sérstaklega ætlaðir til þess á næstu fjárlögum.

En er þetta svona? Eru allir sammála um þetta? Hvað segja þeir sem eru á vettvangi? Um þessar yfirlýsingar segir forstjóri Landspítalans í pistli á vefsíðu spítalans, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ekki gert ráð fyrir auknu álagi í fjárlögum svo spítalinn fær í raun á sig 1,7% sparnaðarkröfu á ári og allt það fé sem við fáum inn byrjar í rauninni á að mæta því aukna álagi. Þannig er orðinn hér spírall undirfjármögnunar sem erfitt er að vinda ofan af nema menn horfist í augu við staðreyndir. … Kostnaðurinn verður ekki minni þótt maður áætli hann lægri.“

Og áfram heldur forstjórinn, með leyfi forseta:

„Í morgun var ég ásamt framkvæmdastjóra fjármálasviðs boðaður á fund fjárlaganefndar Alþingis til að veita upplýsingar um áhyggjur okkar og mat á stöðu mála. Þar útskýrðum við það, að þrátt fyrir þá fjármuni sem til spítalans hafa runnið síðustu tvö árin og við metum mikils, þá er staðreyndin sú að enn vantar töluvert upp á að fjármögnun spítalans sé í samræmi við verkefni. Framkoma forystu fjárlaganefndar og skilningsleysið á þörfum þeirrar grunnþjónustu fyrir almenning sem sjúkrahúsið veitir olli mér vonbrigðum. Vonbrigðum í ljósi mikilvægis og umfangs málaflokksins og þess skýra vilja þjóðarinnar sem kemur fram í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun; að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðisþjónustunnar umfram annað.“

Enn stendur ekki steinn yfir steini í yfirlýsingum forsvarsmanna og talsmanna fjárlaganefndar og það sem verra er að upplifun forstjóra Landspítalans er sú að hvorki formaður fjárlaganefndar né varaformaður nefndarinnar hafi skilning á þeirri grunnþjónustu sem Landspítalinn veitir og séu því ekki líkleg til að vinna spítalanum gagn. Viðhorf þeirra endurspeglast svo best í framkomu þeirra gagnvart stjórnendum spítalans og starfsfólki líkt og forstjórinn lýsir.

Hv. formaður fjárlaganefndar lýsir því við 2. umr. fjáraukalaga fyrir einum, tveimur dögum að um mikla aukningu væri að ræða til fangelsismála, 45 milljónir á fjáraukalögum og 45 milljónir á fjárlögum næsta árs til viðbótar því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Af orðum hennar má ætla að þar séu fangelsismálin á beinu brautinni og ekki yfir miklu að kvarta. En hvað segja þeir sem eru á vettvangi og hafa eitthvað um þennan málaflokk að segja?

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, sagði af þessu tilefni, í viðtal við fréttamann RÚV, að stofnunin neyðist til að loka fangelsum og fækka föngum verði breytingartillögur meiri hluta fjármálanefndar að veruleika. Stofnunin sé komin að þanmörkum, og það er rétt að undirstrika að hér er um að ræða sömu breytingartillögur og formaður fjárlaganefndar lýsti nánast þannig að þær mundu leysa vanda fangelsismála í landinu.

Áfram segir í frétt RÚV, með leyfi forseta:

„Páll Winkel fangelsismálastjóri segir hækkunina nema í raun 34 milljónum, eftir að tekið hefur verið tillit til 11 millj. kr. niðurskurðarkröfu. Samkvæmt sérstakri neyðaráætlun, sem Fangelsismálastofnun vann að beiðni innanríkisráðuneytisins“ — neyðaráætlun, takið eftir — „taldi stofnunin að hún þyrfti að lágmarki 80 millj. kr. hækkun á næsta ári.“

Og áfram segir hann:

„Og þá er ég ekki að tala um, og ég undirstrika það, einhvern óskalista eða gæluverkefni eða eitthvað í þeim stíl, heldur lágmarksupphæð til að geta rekið kerfið hættulaust.“ — Lágmarksupphæð til að geta rekið kerfið hættulaust.

Páll heldur áfram, með leyfi forseta:

„Sko, við erum búin að loka fangelsum, við erum búin að fækka fangavörðum, við erum búin að minnka þjónustu við fanga, það eru minni heimsóknir til fanga, börn geta bara komið á virkum dögum í heimsóknir, það er minna aðgengi að námi. Allt sem kostar peninga, minni útivist og svo framvegis og svo framvegis. Við rekum ekki fangavarðaskóla nema annað hvert, þriðja hvert ár. Allt sem kostar og við getum komist undan, því komumst við undan. Nema það er eitthvað sem þú getur bara gert í ákveðinn tíma.“

Og áfram segir Páll Winkel:

„Staðan er þannig að við erum búin að loka einu fangelsi, og staðan er þannig að við getum ekki haft eins marga fanga á næsta ári eins og núna. Þetta er ósköp einfalt, okkar verkefni eru fangar og við þurfum að draga úr verkefnunum og það er þá að fækka föngum.“

Enn kemur í ljós við fyrstu grunnskoðun og í fyrstu viðbrögðum að það er ekkert að marka það sem forustumenn fjárlaganefndar segja. Það á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Það finnst enginn grunnur fyrir því.

Forustufólki í fjárlaganefnd verður einnig tíðrætt um afrek sín við fjárlagagerðina enda sé hún erfið, illskiljanleg venjulegu fólki, endalaus barátta við kerfið og einhverja menn og eitthvert tregðulögmál. En venju samkvæmt þá tilkynna þau nú yfirleitt um breytingartillögur fjárlaganefndar, þ.e. við fjárlagafrumvarp við 2. umr., rétt eins og um einhvern sögulegan viðburð sé að ræða. Það er yfirleitt rætt um einhverjar gríðarlegar breytingar eftir mikla baráttu við alls konar öfl, jafnt úr þessum heimi sem öðrum, og ótrúlega pressu og ótrúlegt álag, en náðst hafi að leggja fram breytingartillögur sem skipti gríðarlegu máli.

En hverjar eru nú staðreyndirnar þegar að er gáð? Hvaða breytingar verða á fjárlagafrumvörpum frá því að þau eru lögð fram og þar til þau verða að lögum? Að öllu jöfnu breytast fjárlagafrumvörp sáralítið í meðförum þingsins og fjárlaganefndar. Reyndar eru allar stærstu breytingarnar vegna uppfærslu á tekjuáætlun eða útgjaldaliðum út frá nýjustu upplýsingum sem fram hafa komið frá því að frumvarpið var unnið síðla sumars.

Sem dæmi um þetta má nefna að í breytingartillögum fjárlaganefndar, vegna þess frumvarps sem hér um ræðir, er gerð tillaga um hækkun tekna upp á ríflega 4 milljarða, 4,2 milljarða ef ég man rétt, vegna breyttra forsendna að mestu. Að stærstum hluta er um að ræða hækkun á skatttekjum, mest af virðisaukaskatti, upp á 5,5 milljarða kr., sem unnin er á grunni gagna um álagningu virðisaukaskatts. Aðrar breytingar skýrast að mestu af vaxtabreytingum.

Hækkun útgjalda, samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans, nemur nærri 9 milljörðum kr. Það skýrist að mestu af launahækkunum vegna kjarasamninga. Aðrar breytingar eru hverfandi, eins og er reyndar við afgreiðslu fjárlaga við hvert einasta ár. Sem dæmi um það nema breytingartillögur meiri hlutans á fjárlagafrumvarpi þessa árs 0,6% á tekjuhlið og 1,3% á gjaldahlið. Fyrir fjárlög 2015 námu breytingartillögur fyrir 2. umr. 1,4% á tekjuhlið og jafnmiklu á gjaldahlið. Árið 2014 voru það 4% á gjaldahlið og 4% á tekjuhlið og þá hafði sérstaklega verið rætt um það í upphafi, þegar frumvarpið var lagt fram, að gerðar yrðu á því breytingar af því það var ekki fullbúið. Þeir sem muna það þá bað ríkisstjórnin um frest til að geta lagt fram frumvarpið af því að þau voru ekki tilbúin með það — 2013 1,5% báðum megin, tekjuhlið og gjaldahlið, 2012 0,3% á tekjuhlið og gjaldahlið.

Þannig að breytingar í meðförum þingsins, frá því að frumvörp eru lögð fram þar til þau verða að lögum, eru sáralitlar og skýrast að langstærstum hluta af reiknanlegum stærðum og uppfærslum á tekjuhlið og betri innheimtu á tekjum, kjarasamningum o.fl. Að meðaltali eru breytingar á fjárlagafrumvarpi, frá því að það er fyrst lagt fram og þar til það verður að lögum, rétt um 1% á gjalda- og tekjuhlið.

Það vonda við breytingartillögu fjárlaganefndar að þessu sinni er það að dregið er úr frumjöfnuði í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. það minnkar það sem er til ráðstöfunar, munur tekna og gjalda. Það er minni afgangur af rekstri til að greiða niður skuldir, lækka skuldir og greiða niður vexti, en var þegar lagt var upp með frumvarpið. Það er vont. Reyndar urðu breytingartillögur fjárlaganefndar, vegna fjárlaga yfirstandandi árs, einnig til þess að draga úr frumjöfnuði á fjárlögum. Í ár held ég að það séu um 8%, breytingartillögurnar verða þó til þess að það dregur úr um 8% af frumjöfnuði sem áætlaður var í 1. umr. frumvarpsins þegar það var lagt fram.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, því þriðja í röð hægri stjórnarinnar, eru bundnar vonir við að ríkissjóður verði rekinn réttum megin við núllið á næsta ári. Ríkissjóður var í fyrsta sinn frá hruni rekinn á jöfnuði fjárlagaárið 2013 eftir gríðarlega umfangsmiklar aðgerðir, jafnt við að afla tekna og draga úr útgjöldum og snúa tapaðri stöðu til sigurs, sem við gerðum. Á hverju einasta ári eftir hrun var bati upp á tugi milljarða króna í rekstri ríkisins, 57 milljarða 2009, 50 milljarða 2010 og svo koll af kolli þar til að á fjórum árum var tapinu eftir hrunið snúið við til sigurs, og við skiluðum ríkissjóði á núlli í hendurnar á hægri stjórninni sem tók hér við vorið 2013.

Þar eru þau í dag. Á nákvæmlega sama stað og þau byrjuðu vorið 2013, að berjast við að halda ríkissjóði á núlli, spólandi föst í sama farinu. Það sem verra er, þau geta ekki treyst á undirliggjandi rekstur ríkisins til að jöfnuður náist í ríkisrekstri á næsta ári, heldur ætla þau að treysta á arðgreiðslur frá bönkunum til þess. Þetta er að mínu viti svo ævintýralegur aumingjaskapur í ríkisrekstrinum að ég held að það sé leitun að öðru eins, að minnsta kosti á síðari árum ef ekki frá lýðveldisstofnun, að svo metnaðarlaust, kraftlaust og ræfilslegt fjárlagafrumvarp sé lagt fram. Af 700 milljarða kr. tekjum stefna þau að því að skila 10 milljarða afgangi, rétt liðlega 1% af tekjum og þurfa að fara út í Landsbanka til að ná í það. Þau geta það ekki af rekstri ríkisins.

Að mínu mati er þetta bæði hneisa og skömm og ræfilsskapur og botnlaust metnaðarleysi þeirra sem fara með ríkisfjármálin og þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn hér í þingsal og ætla að keyra þetta frumvarp í gegn. Að þriðja árið í röð skuli hægri stjórnin, undir forystu fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins uppi í ráðuneyti og forystu fjárlaganefndar, sem þykist allt geta og allt kunna, spóla fast á sama stað, þriðja árið í röð. Allir gamaldags og góðir og gegnir íhaldsmenn hefðu skilað þessum ríkissjóði núna, miðað við það sem þeir fengu í hendurnar fyrir fjórum árum, með 50 milljarða kr. afgangi. Ég er handviss um það. Góðir og gegnir íhaldsmenn þeir mundu blóðroðna af skömm yfir því að sitja uppi með frumvarp af því tagi sem hér er.

Þetta er staðan. Þetta er baráttan sem þau standa í núna; eftir þrjú ár að spóla sig föst á núllinu og ná í peninga út í Landsbanka, vonandi. Það versta við þetta metnaðarleysi og getuleysi stjórnarmeirihlutans er að þetta grefur undan trúverðugleika ríkisfjármála og veikir ríkissjóð til að takast á við minnstu sveiflur sem fram undan kunna að vera. Og þær munu koma. Þær koma einn góðan veðurdag. Með sama áframhaldi og þetta fjárlagafrumvarp hér vitnar til þá verður búið að hola ríkissjóð svo að innan að hann verður algjörlega vanbúinn til að takast á við minnstu niðursveiflu, við minnsta áfall. Þegar tekjustofnarnir eru að stækka og eflast og atvinnulífið er að eflast, við þær aðstæður, þá geta þau ekki skilað ríkissjóði á núlli nema með því að fara út í banka.

Þau munu ekki geta tekist á við lágmarksniðursveiflu á næstu árum. Ríkisstjórn sem tekur fjárlagafrumvarp með þessum hætti þriðja árið í röð mun ekki geta varið velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, sjúkrahúsin eða skólana þegar niðursveiflan kemur. Hún kemur, ég get lofað ykkur því, þannig hefur það alltaf verið.

Eins og ég hef rakið í þessari ræðu minni, vegna fjárlagafrumvarps 2015, þá stendur í fæstum tilfellum steinn yfir steini í ummælum og yfirlýsingum forustufólks stjórnarflokkanna hér á þingi eða í ríkisstjórn. Það á ekki síður við um fjárlög en önnur mál. Þau eru óspör á lýsingar af sjálfum sér og þau eru ólöt við að segja hetjusögur og afrekssögur af sjálfum sér sem enginn kannast við og enginn sér og enginn getur vitnað um nema þau sjálf, eins og ég rakti hér áðan.

Ég hef sömuleiðis sýnt fram á þetta metnaðarleysi, þetta gríðarlega metnaðarleysi, og þá Sjálfstæðisflokksins helst af öllu, sem hefur nú oft talað eins og hann hafi pínuvit á fjármálum, sérstaklega þá ríkisfjármálum. Að geta ekki einu sinni rekið ríkissjóð núna, þrem árum eftir að þau fengu hann í hendurnar á núllinu, þannig að þau geti byrjað að borga niður skuldir. Þau eru ekki byrjuð á því. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að ekki verður byrjað á því á næsta ári heldur. Í nefndaráliti meiri hlutans segir berum orðum að enn sé nokkuð í land með að hefja niðurgreiðslur skulda og vaxtakostnaðar.

Það er vegna þess að þau geta það ekki. Þau eru búin að rústa tekjuöflunarleiðum. Á þessu kjörtímabili hafa þau vísað frá sér tekjum, þegar því lýkur, upp á nærri 100 milljarða kr. Og þau hafa samt í höndunum í dag yfir 100 milljörðum kr. meira til ráðstöfunar en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði undir lok síðasta kjörtímabils. Við skiluðum fjárlögum á núlli. Hvernig í ósköpunum fara menn að þessu? Hvernig í ósköpunum geta menn verið svona óábyrgir við rekstur ríkisins eins og hér um ræðir?

Hv. varaformaður fjárlaganefndar óskaði eftir því að menn ræddu helst stóru myndina sem er dregin upp í fjárlögunum. Ég er honum sammála um það. Við þurfum að ræða það. Við þurfum að ræða um stóru myndina sem er dregin upp í fjárlögum hvers árs og þegar fjárlög áranna eru skoðuð saman og þegar þetta fer að límast saman og teiknast upp.

Hver er þá myndin á þeim fjárlögum sem þessi vonda hægri stjórn er að leggja hér fram með fjárlagafrumvarpi? Myndin af fjárlögum ríkisstjórnar hægri flokkanna verður nefnilega skýrari með hverju árinu. Þetta er mynd af ójöfnuði þar sem þeim efnameiri er hampað á kostnað þeirra efnaminni. Þar sem þeim auðugustu er hlíft við að greiða til samfélagsins og þar sem stærstu fyrirtækjunum er skotið undan samfélagslegri ábyrgð á kostnað velferðar-, heilbrigðis- og menntamála.

Stóra myndin er af afnámi auðlegðarskatts og hækkun á matarskatti. Stóra myndin er af milljarða lækkun á veiðigjöldum og af Landspítala þar sem sjúklingar liggja frammi á göngum, inni á kaffistofum eða í tækjageymslum. Stóra myndin er af bankastjóra sem lýsir blússandi góðæri en vanfjármögnuðum Landspítala og nemendum sem hefur verið úthýst frá námi. Stóra myndin er af kjarabótum þingmanna og ráðherra og öldruðum og öryrkjum sem sömu þingmenn og ráðherrar sviptu eðlilegum kjarabótum í atkvæðagreiðslu í gær; þar sem nei-liðið, stjórnarliðið, lagðist gegn því. Stóra myndin er af hripleku húsnæði þjóðarspítalans, ömurlegu ástandi sem stjórnendur spítalans og læknar hafa verið að lýsa á undanförnum dögum og undanförnum missirum annars vegar og hins vegar áformum um viðbyggingu við Alþingi, samkvæmt hundrað ára gamalli teikningu húsameistara ríkisins, til að svala þörf forsætisráðherra og áhuga hans á gömlum húsum.

Við skulum endilega ræða þessa stóru mynd. Það er það sem við eigum að gera, og stóru málin sem fjárlögin sýna okkur. En þá skulum við byggja það samtal, svo að ég vitni aftur í forstjóra Landspítalans, á staðreyndum en ekki fullyrðingum sem standast ekki skoðun og færa umræðuna ekkert áfram, líkt og forstjórinn óskar eftir að fá af hálfu fjárveitingavalds Alþingis, af hálfu stjórnarþingmanna og ráðherra, en hefur ekki fengið. Við skulum ræða það á réttum forsendum og byggja það á staðreyndum en ekki sögusögnum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Við þurfum engar hetjusögur. Við þurfum bara staðreyndir.

Þá dregst þessi stóra mynd upp af fjárlagagerð hægri stjórnarinnar, þriðju fjárlögin í röð, að þau ráða ekki við að reka ríkissjóð svo að sómi sé að, spólandi föst á sama stað og þau tóku við vorið 2013 og engin áform uppi um það á næsta ári að hefja niðurgreiðslur skulda sem þó voru haldnar margar ræður um hér á síðasta kjörtímabili af sama fólki; hversu mikilvægt það væri að taka nú til í ríkisrekstrinum; hversu nauðsynlegt það væri, og ég er algjörlega sammála því, að afla tekna, eiga afgang til að greiða skuldir, greiða niður vexti, efla innviðina, styrkja sjúkrahúsin, skólana, velferðarkerfið.

En hvar erum við stödd? Með ósk um það af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar og stjórnarliða sem óska þess og vonast til þess að ríkissjóður lendi réttum megin við núllið á næsta ári, fjórða árið í röð. En til þess að svo verði þurfa þau að fara út í Landsbanka og ná í pening af því að þau ná honum ekki út í rekstri ríkisins. Þetta er pólitískur vesaldómur að mínu mati, virðulegi forseti.