145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:51]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það minntist reyndar enginn á árin 2008–2009 nema hv. þingmaður.

Það er alveg rétt hjá honum að það má setja meiri peninga í Landspítalann. Það er hægt að setja endalausa peninga í Landspítalann. Við höfum stóraukið framlög til Landspítalans og það er staðreynd.

Annað sem hv. þingmaður kom inn á var að hann kvartaði undan því að ekki væri nægur afgangur á fjárlögum. Ég er alveg sammála því. Það mætti vera miklu meiri afgangur og þyrfti að vera til að við gætum greitt niður skuldir okkar. Við höfum hins vegar tekið þá ákvörðun að setja peninga í grunnstoðir þjóðfélagsins, þar á meðal heilbrigðismál, þar á meðal hafa laun verið stórhækkuð. Við höfum sett peninga í ákveðna hluti til að halda þessu þjóðfélagi gangandi og byggja það upp að nýju eftir það sem gerðist árið 2008.

Hefðum við ekki átt að gera það? Við hefðum getað skilað meiri afgangi. Hins vegar hefur stjórnarandstaðan talað á allt annan hátt síðasta árið. Menn hafa krafist þess að peningar væru settir í þetta, þetta, þetta og þetta, endalausar kröfur um að meira sé sett í nánast alla málaflokka. (Gripið fram í.) Á sama tíma kvarta þeir undan því að það sé ekki nógu mikill afgangur.

Hvað vill hv. þm. Björn Valur Gíslason? Vill hann meiri niðurskurð? Ég efast ekki um að hann muni koma hér upp á eftir og segja: Nei, ég vil það ekki. Ég vil að þið náið í meiri peninga til allra þeirra sem eiga meiri peninga. Við getum ekki endalaust farið í vasa þessa fólks. Það er staðreynd málsins.