145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að setja endalausan pening í Landspítalann. Það er alveg rétt, en það er enginn að tala um það. Ég er að benda á það sem fólk segir sem stjórnar Landspítalanum. Ég er að benda á það sem sjúklingar segja. Ég er að benda á það sem starfsfólk segir. Þetta gengur ekki lengur. Það eru ekki nægir peningar til að reka Landspítalann ef það þarf að geyma sjúklinga inni á tækjageymslu. Það eru ekki nægir peningar til að reka Landspítalann, segir forstjóri Landspítalans.

Það er ekki hægt að reka fangelsiskerfið, segir forstjóri Fangelsismálastofnunar. Er þetta ekki nokkuð skýrt? Eru þessir menn að ljúga? Fara þeir með ósannindi?

Það er rangt að ekki meiri sé afgangur af fjárlögum vegna þess að það hafi verið sett svo mikið í velferðarkerfið og að verið sé að byggja upp samfélagið. Það er beinlínis rangt. Það er svo lítill afgangur af rekstri ríkisins á þessu ári og síðasta ári og verður á næsta ári vegna þess að menn hafa hafnað því að afla tekna.

Ég fór yfir þetta áðan, í gegnum veiðigjöld, auðlegðarskatt, lækkun á orkuskatti, tekjuskatti o.s.frv. þá verða um 100 milljarðar kr. á þessu kjörtímabili hægri stjórnarinnar sem koma ekki inn í ríkiskassann vegna þess að menn ákváðu að hafa það þannig. Þeir vildu það ekki.

Framsóknarmenn koma hingað og segja: Það er ekki endalaust hægt að fara ofan í vasa þessa fólks. Um hvaða fólk eru þeir að tala? Hvar hafa menn verið að lækka skattana? Það er auðlegðarskattur upp á 1,5% af hreinni eign, 100 milljónum eða hvað það var, 75 eða hvað það var. Það er ekki endalaust hægt að fara ofan í vasa þessa fólks. Það verða aðrir að borga. Þetta er nákvæmlega það sem ég er að benda á. Menn hafa hafnað tekjum, slegið frá sér tekjurnar og geta ekki rekið ríkissjóð núna nema rétt á núlli svo framarlega sem þeir rölta yfir í Landsbankann og ná í arðgreiðslurnar.