145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef það gjarnan fyrir sið að þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna og sjá það sem hægt er að rökræða út frá, sem eru vissulega einhverjir punktar. Mér fannst hv. þingmaður þó, ef ég á að vera ærlegur, eyða fullmiklum tíma miðað við fyrri störf hans, m.a. í fjárlaganefnd, miðað við fjárlaganefndarstörf, í að vaða beint í manninn, sem er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar. Það voru notuð orð eins og skilningsleysi og yfirlýsingagleði og síðan vorum við aðrir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans undir þegar hv. þingmaður talaði um metnaðarleysi, skilningsleysi og hneisu og skömm.

Ég veit því ekki alveg hvar ég á að bera niður í rökræðunni með þetta. Ég vil þó koma upp og segja að ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni því að mér finnst þetta góð fjárlög. Hér er þriðja árið í röð, og hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á, verið að reka ríkissjóð með afgangi. Það varð að snúa þessum hallarekstri við sex ár þar á undan til þess að við verðum í færum til að ná niður skuldum í framhaldinu og vaxtagjöldum. Hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um að eitt af forgangsverkefnum við fjárlagagerð sé að komast í færi til að ná niður þessum þriðja hæsta útgjaldalið fjárlaganna.