145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rökstuddi mál mitt ágætlega með beinum tilvitnunum í alla þá sem ég var að tala um. Ég fór ekki í manninn að neinu leyti nema til að færa rök fyrir því að yfirlýsingar stjórnarliða um það sem var að gera standast ekki rök, þau standast ekki skoðun. Það er enginn sammála þeim. Það tekur enginn undir það sem þau gera utan þessara tveggja flokka.

Ég les hvergi nokkurs staðar greiningar á gerðum þeirra varðandi fjárlagagerð og annað sem tekur undir eða styður það sem menn eru að segja. Þvert á móti er nánast allt saman hrakið til baka reglulega, ef ekki samdægurs þá innan tveggja, þriggja sólarhringa. Þá er búið að hrekja allt til baka sem sagt er.

Ég endurtek að það er hneisa og skömm að leggja fram fjárlög fjórða árið í röð á sama stað. Á núlli. Það á ekki að gerast. Það datt engum í hug að mundi gerast vorið 2013 við kosningarnar þá, það ár þegar ríkisreikningur var í fyrsta skipti lagður fram eftir hrun á núlli. Hvarflaði það að einhverjum að við stæðum þá hér að ræða fjárlög 2016 á nákvæmlega sama stað, að vonast eftir núllrekstri?

Það er ekki rétt að við rekum ríkissjóð með afgangi á þessu ári eða næsta. Við þurfum að ná í arðgreiðslur til þess. Við þurfum að treysta á óreglulegar tekjur. Við vonumst til þess að þær skili sér inn í ríkissjóð, þannig má skríða yfir núllið.

Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að brýnt sé að lækka skuldir. Það var eitt af meginmarkmiðum okkar allt síðasta kjörtímabil að reyna að ná tökum á ríkisfjármálum til að koma okkur réttum megin við núllið og halda síðan áfram til að geta farið að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað. En það kemur fram í nefndaráliti (Forseti hringir.) meiri hlutans að það verði ekki einu sinni gert á næsta ári.