145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja forseta: Hvað ætlum við að halda svona lengi áfram? Hv. þm. Brynjar Níelsson hellir sér yfir stjórnarandstöðuna fyrir að gefa ekki upp hvað hún ætlar að tala lengi. Við höfum ekki verið (Gripið fram í.) spurð. Það hefur enginn spurt okkur að því. Hér eru allir í sinni fyrstu ræðu. Það er ekkert í gangi hérna, það er ekkert málþóf í gangi eða neitt. (Gripið fram í.) Menn eru í sínum fyrstu ræðum. Gærdagurinn fór í að nefndarmenn töluðu. Svo fáum við, hinir ræflarnir, að segja eitthvað líka og við viljum gjarnan fá að gera það í dagsbirtu. Við viljum fá að gera það meðan fólk vakir og fylgist hér með. Það er það eina sem við erum að biðja um.

Ég ætla bara að spyrja forseta eina ferðina enn: Hvenær ætlum við að láta af þessum hallærislegheitum og fara að ræða saman um það hversu lengi þessi þingfundur á að standa? Þetta gengur ekki svona öllu lengur.