145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við sáum það á ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar, fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins, að þingmönnum stjórnarmeirihlutans hefur mjög sigið larður. Satt að segja minnist ég þess ekki að hv. þingmaður sem ég tel mig í hópi aðdáenda gagnvart hafi haldið ræðu áður sem ég á jafn erfitt með að skilja en var þó þrungin hótunum. Ég víla nú ekki allt fyrir mér, eins og hæstv. forseti veit, og er ekkert að kvarta undan því þó að ég þurfi að standa hér töluvert lengi, en hv. þm. Brynjar Níelsson orðaði það með þeim hætti að hér yrði fundi fram haldið svo lengi sem þyrfti eða þangað til stjórnarandstaðan hefði talað nægju sína.

Mér finnst að hæstv. forseti eða eftir atvikum hv. þm. Brynjar Níelsson þurfi að skýra hvað í þessu felst. Er þá ætlunin sú að skilgreina orð hæstv. forseta „enn um sinn“ með þeim hætti að það kunni hugsanlega að eiga að láta fund standa þangað til mönnum ýmist er þrotið umræðuefni eða örendi? Vakir það fyrir? (Forseti hringir.) Það yrði ný lífsreynsla fyrir mig og miðað við það hvernig þingmenn stjórnarliðsins hanga hérna máttvana, lémagna og aðframkomnir í stólum sínum í þingsalnum finnst mér bara með tilliti til mannréttinda þeirra og heilsu að það ætti að láta nótt sem nemur nú þegar þó að ég treysti mér alveg til að vera svolítið lengur, (Gripið fram í.) kannski samt ekki jafn lengi og hv. þm. Brynjar Níelsson er að tala um. (Gripið fram í.)