145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í mínum þingflokki eru menn sem telja það ekki eftir sér að vera hér næturlangt og finnst hér best að vera. Ég játa að mér er þannig farið að mér þykir best að vera heima hjá mér. Á það einkum við um næturnar og skilja það þeir sem til þekkja.

Ég ítreka spurningu mína til forseta um fundarlok og brýni hann til að ljúka hér umræðu. Ég tel ekki boðlegt fyrir þingmenn í þingflokki Samfylkingarinnar að flytja hér ræðu um fjárlög að næturlagi. Ég vil bara gera forseta grein fyrir því, ef hann telur að þetta muni stytta eitthvað umræðuna, að þær ræður sem þingmenn úr þingflokki Samfylkingarinnar kunna að þurfa að halda að næturlagi verða endurfluttar í dagsbirtu. Þær verða einfaldlega fluttar með þeim hætti að þeir þingmenn sem þurfa að tala hér að næturlagi munu biðja um orðið aftur eða aðrir fyrir þeirra hönd og fara aftur með það mál sem þeir voru knúnir til að fara með hér að næturlagi þannig að forseta sé alveg ljóst, (Forseti hringir.) af því að við tölum bæði íslensku, að það styttir í engu þinghaldið að halda hér áfram inn í nóttina.