145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:18]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í dag munar mig svo sem ekkert um að standa hér fram á rauða nótt. Mér þykir þetta samt alveg afskaplega mikil óvirðing gagnvart kjósendum okkar og því fólki sem enn kann að hafa áhuga á að fylgjast með umræðum á Alþingi. Mér skilst að það sé nokkur hópur og þess vegna held ég að það sé mun gáfulegra og meiri virðing gagnvart kjósendum að við tölum í dagsbirtu en ekki að kvöldlagi.

Auk þess langar mig að spyrja mjög praktískrar spurningar. Mér sýnist að ég sé sjötta á mælendaskrá eins og staðan er núna og mér þætti mjög gott að fá að vita hvort ég eigi að tala í nótt eða hvort ég megi bara fara heim og fínpússa ræðuna og mæta „spræk sem læk“ á morgun.