145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér finnst það vera vanvirðing við þingmenn að þeir þurfi að flytja sína fyrstu ræðu í 2. umr. eftir miðnætti. Það er verið að gjaldfella ræðurnar. Við vitum að það er horft á Alþingisrásina og stór hópur sem horfir á hana er eldri borgarar sem hafa mikinn áhuga á að fylgjast með þjóðmálum og þeir eru venjulega sofnaðir á þessum tíma.

Mér finnst, alveg eins og hv. þm. Helgi Hjörvar segir, að það eigi að bjóða þeim þingmönnum sem þurfa að halda sínar fyrstu ræður á þessum tíma að flytja þær aftur að degi til. Það er verið að gjaldfella málflutning þingmanna. Eðlilega vilja þingmenn, þegar þeir flytja sínar ræður í svona stóru máli eins og fjárlagaumræðan er, reyna að ná til kjósenda sinna. Það hlýtur líka að vera markmiðið.

Hvaða kjósendur eru vakandi á þessum tíma? Það eru kannski einhverjir sem eru á næturvöktum og einhver þannig hópur. Að öllu jöfnu eru allir steinsofandi núna og þingheimur ætti að vera það líka til að safna kröftum fyrir þá daga sem fram undan eru.