145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:21]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki að hjálpa málinu eða umræðunni, þessi framkoma við stjórnarandstöðuna hér. Eins og fram hefur komið þá er þetta óvirðing og ekki bara við okkur, þetta er óvirðing við þá sem vilja fylgjast með þessari umræðu. Það er hugsanlega einhver hluti almennings í landinu sem vill vita hvaða erindi við eigum hér á Alþingi og hver er hin undirliggjandi pólitík í þeim ákvörðunum sem við tökum og þeirri afstöðu sem við tökum eins og til dæmis til fjárlaga ríkisins.

Hv. þm. Brynjar Níelsson kom hér áðan og hafði í hótunum í einhverri stríðsumræðu sem hann á frumkvæðið að. Ég verð bara að segja fyrir mitt leyti: Meðan mælendaskráin liggur frammi og menn eru enn í fyrstu ræðum, þá er ekki við hæfi að fara að haga sér eins og hér sé eitthvert málþófsástand eða eitthvert vandræðaástand uppi. Það er ekki einu sinni tímabært að fara að spyrja hve umræðan eigi að standa lengi af okkar hálfu. Við förum að þingsköpum og höldum okkar fyrstu ræður eins og lög og þingsköp gera ráð fyrir að við gerum.