145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það verður einhvern veginn alltaf þannig á kvöldfundum að stjórnarþingmenn segja: Já, þetta er nú bara fínt og við getum talað inn í nóttina um mikilvæg mál og allt það. En svo eru þeir ekki hér nema í litlum minni hluta. Yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna sem eru hér á vaktinni eru stjórnarandstöðuþingmenn. Hvar er það fólk sem heimtar hér kvöldfundi og næturfundi? Ekki nennir það að vera hér með okkur hinum.

Á sama tíma og við sitjum hér undir þessum hallærisheitum forseta þingsins, þessu power-geimi sem stendur hér yfir, er verið að flytja börn í lögreglufylgd út á flugvöll og senda þau úr landi, slíta þau úr samhengi við fólk sem þau hafa tengst og félagslegar aðstæður. Hér er verið að flytja hælisleitendur úr landi í lögreglufylgd. Það er veruleikinn og á meðan erum við í einhverju hallærisgeimi hér. Það er ekki í lagi. (Forseti hringir.) Forsetaembættið í þessu húsi þarf að taka sig saman í andlitinu og fara að átta sig á því hvað er að gerast hérna úti og hvernig við vinnum í nútímasamfélagi.