145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég held að það liggi algerlega fyrir að sú staða sem við erum í er ekki þinginu til sóma, ekki stjórnmálunum til framdráttar, ekki neinum flokki til upplyftingar eða framdráttar á nokkurn hátt. Við vitum að áður en þingi lýkur fyrir jól þurfum við að ná hér einhvers konar samtali. Stjórn og stjórnarandstaða þurfa að ná hér einhvers konar samtali, hér þarf að fara yfir það hvernig við ætlum að ljúka þingstörfum. Starfsáætlun lýkur ekki á morgun heldur hinn miðað við þá áætlun sem við erum enn að vinna samkvæmt og forseti hefur ekki gefið upp nein áform um breytingar á henni.

Það er alveg ljóst að við erum yfir hlaðin ef takast á að að ljúka þingi í þessari viku og eitthvað inn í næstu viku. Þetta samtal þarf að eiga sér stað, þessir fundir þurfa að vera haldnir. Sú della sem forseti stendur fyrir hér gagnvart þinginu og gagnvart stjórnarandstöðunni er ekki til að bæta andrúmsloftið á Alþingi, ekki til að auka möguleikana á því að hér verði málefnaleg og uppbyggileg samtöl (Forseti hringir.) um það hvernig ljúka á þingstörfum fyrir jólaleyfi. Ég hef áhyggjur af því (Forseti hringir.) að við séum að setja hér málin í mjög alvarlegan hnút og sá hnútur er algerlega á ábyrgð forseta.