145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri manna glaðastur ef hér væri eitthvað til að gleðjast verulega yfir í uppsveiflu sem við getum ekki treyst á að vari endilega í mörg ár í viðbót og undir lok hennar kannski ætti að vera myndarlegur afgangur af ríkissjóði ef einhvern tíma. Við ættum að vera að greiða niður skuldir og styrkja okkur til að geta tekist á við niðursveifluna í framtíðinni, en undirliggjandi rekstur ríkisins er ekki að batna milli ára. Þannig met ég það og ég skal þá gera það sem fyrrverandi fjármálaráðherra og tel mig hafa örlítið skynbragð á þetta.

Síðan verð ég að segja varðandi það sem hv. þingmaður sagði um bætur aldraðra og öryrkja og lögin, þar held ég að hv. þingmaður sé á ákveðnum villigötum. Þetta er þannig að meginreglan er að bótafjárhæðirnar skuli fylgja launaþróun og þar hafa menn vissulega deilt um hvort þá eigi að miða við hækkun lægstu launa eða meðallaunaþróun. Ef launaþróunin er svo óhagstæð að laun hækka minna en verðlag, það er öryggisnet, þá skulu bæturnar fylgja því. (Forseti hringir.) Það er enginn að tala um að breyta þessum lögum. Það er verið að tala um að framkvæma þau í samræmi við anda þeirra, að bætur elli- og örorkulífeyrisþega fylgi raunverulega launaþróun eins og um hana hefur samist.