145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sem erum að vinna eftir lögunum þurfum auðvitað að vinna eftir þeim og gera þar af leiðandi greinarmun á því hvort við erum að tala um laun eða bætur, vegna þess að það er ekki það sama sem á við. En það er þannig að eftir hækkunina sem kemur til um áramótin, upp á 9,7%, hafa bætur hækkað frá ársbyrjun 2014 um 17,1% meðan verðlag hefur á sama tíma hækka um 7,1%. Þarna er um gríðarlega mikla kaupmáttaraukningu að ræða og sem dæmi má nefna að einhleypur öryrki með heimilisuppbót hækkar úr 225.070 kr. í 246.902 kr. Það er hækkunin.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur kaupmáttur bóta aukist, það er ekki hægt að deila um. Sú hækkun sem kemur til núna mun breyta þeirri stöðu enn frekar. (Forseti hringir.) En stóra verkefnið er að endurskoða kerfið. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum gera betur. (Forseti hringir.) Pétursnefndin er í gangi með það stóra verkefni og við bíðum og sjáum hvað kemur út úr henni (Forseti hringir.) og munum væntanlega taka rispuna í þinginu þegar þar að kemur.