145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að spyrja hv. þingmann um síðasta kjörtímabil en það er sjálfsagt að fara yfir það. Þá urðu kjarasamningsbundnar hækkanir á miðju ári og jafnvel þó að sjaldan hafi verið erfiðara í ríkisrekstrinum árið 2011 var ákveðið að láta aldraða og öryrkja hækka frá sama tíma um það sama og aðrir. (Gripið fram í.) En þegar hv. þingmaður talar um popúlisma þá verð ég að mótmæla því harðlega að Landssamband eldri borgara, að félög eldri borgara um land allt, að félög eldri borgara í Sjálfstæðisflokknum um land allt séu hér uppi með popúlisma þegar þau kalla eftir því að þeirra eigin þingmenn, í tilfelli félaga eldri sjálfstæðismanna um land allt, hækki laun aldraðra og öryrkja frá sama tíma og annarra. Það er ekki popúlismi. Það er sjálfsögð og eðlileg réttlætiskrafa og þingmaðurinn skuldar kjósendum sínum og Landssamtökum eldri borgara, ekki okkur í stjórnarandstöðunni, skýringu á því hvers vegna þeir eru ekki virtir sömu réttinda og aðrir borgarar í landinu.